Innlent

33 starfs­mönnum Grundar­heimila verði sagt upp

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Dvalarheimilið Ás í Hveragerði.
Dvalarheimilið Ás í Hveragerði.

Allt stefnir í að 33 starfsmönnum Grundarheimilanna verði sagt upp, þar með talið öllu starfs­fólki á Þvotta­húsi Grundar­heimilanna, sem eru átta talsins. Þá verður nítján sagt upp í ræstinga­deild í Ási, hjúkrunar-og dvalar­heimili í Hvera­gerði. Þá verða breytingar á sex störfum til við­bótar, ýmist með upp­sögnum eða þau lögð niður.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi félagsmönnum sínum hjá Ási og þvottahúsinu í dag. Samkvæmt heimildum Vísis hafði starfsfólki ekki verið tilkynnt um uppsagnirnar þegar Efling sendi tölvupóstinn og lýsir starfsmaður í samtali við Vísi mikilli óreiðu.

Grundarheimilin eru þrjú, Grund og Mörk í Reykjavík og Ás í Hveragerði. Grund annast auk þess rekstur 152 leiguíbúða Markarinnar 60+ í Mörkinni og rekur í Hveragerði eigið eldhús og þvottahús sem þjónustar öll Grundarheimilin. Íbúar eru alls um 370 talsins og fjöldi starfsmanna verið í kringum 700.

Í apríl síðastliðnum tók Karl Óttar Einarson við forstjórastöðunn af Gísla Páli Pálssyni, sem nú er stjórnarformaður Grundar. Karl Óttar segist í samtali við Vísi ekki vilja tjá sig um málið. Hann segir að boðað hafi verið til starfsmannafundar bæði á morgun og á föstudag.

Þjónustan keypt frá einkaaðilum

Í pósti Eflingar til starfsmanna segir að stjórnendur hafi tilkynnt sér í gær um uppsagnirnar. Tilgangurinn sé að spara peninga og segir Efling að stjórnendur ætli sér í staðinn að kaupa þjónustu frá einkaaðilum.

„Efling hefur þegar komið á framfæri mótmælum. Ég ræddi sjálf í dag í síma við Gísla Pál Pálsson, stjórnarformann Grundarheimilanna og kom mótmælum félagsins á framfæri. Ég hvatti Gísla til að snúa þessari ákvörðun við, Grundarheimilin hafa ekki komið til móts við þau mótmæli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×