Tvö rauð spjöld og sjálfsmark í uppbótartíma

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Örlagaríkt sjálfsmark Joel Matip.
Örlagaríkt sjálfsmark Joel Matip. vísir/getty

Liverpool tapaði 1-2 fyrir Tottenham eftir að hafa misst tvo menn af velli í leiknum. Sigurmarkið kom í uppbótartíma þegar Joel Matip setti boltann í eigið net. 

Tottenham vann sinn fyrsta sigur gegn Liverpool síðan árið 2017 og heldur góðu gengi sínu áfram en þeir hafa ekki tapað leik í deildinni á þessu tímabili. 

Curtis Jones fékk að líta fyrsta rauða spjald leiksins á 26. mínútu eftir tæklingu á Yves Bissouma, dómarinn gaf upphaflega gult en kíkti svo í skjáinn og breytti ákvörðun sinni í rautt spjald. 

Luis Diaz skoraði fyrsta mark leiksins en línuvörður leiksins dæmdi það af vegna rangstöðu. VAR dómararnir sáu ekkert athugavert við það og leikur hélt áfram, gefin var út yfirlýsing eftir leik þar sem VAR dómararnir viðurkenndu mistök sín, Luis Diaz var ekki rangstæður, þeir hefðu átt að stíga inn í og dæma markið gilt. 

Heung Min-Son kom Tottenham svo marki yfir eftir glæsilega stungusendingu James Maddison á Richarlison sem lagði boltann á Son. Liverpool tókst svo að jafna metin rétt fyrir hálfleikslok. 

Manni undir í hálfleik ákvað Jurgen Klopp að skipta Diogo Jota inn á völlinn. Hann átti erfiðan dag og lét sjálfur reka sig af velli eftir að hafa fengið tvö gul spjöld með stuttu millibili. 

Tveimur mönnum færri neyddust Liverpool til að leggjast til baka og Tottenham sóttu grimmt síðustu mínúturnar. Á einhvern ótrúlegan hátt virtist Liverpool ætla að takast að hirða stig í dag en í uppbótartíma leiksins setti Joel Matip boltann í eigið net. Lokaniðurstaða 2-1 sigur Tottenham og þeir eru, ásamt erkifjendum sínum í Arsenal, einu liðin sem hafa ekki tapað leik. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira