Vålerenga vonast til að endurheima bikarinn eftir tap í fyrra, þar áður unnu þær tvö ár í röð. Lyn hefur hins vegar aldrei náð svo langt, liðið komst í 8-liða úrslit í fyrra og fyrsta skipti í undanúrslit núna.
Lyn komst yfir á 32. mínútu með marki frá Kamillu Melgård og heimakonum tókst ekki að jafna fyrr en líða tók á seinni hálfleikinn. Karina Sævik skoraði fyrir Vålerenga á 64. mínútu og þá færðist fjör í leikinn.
Ingibjörg Sigurðardóttir kom inn á nokkrum mínútum eftir jöfnunarmarkið, skömmu síðar komu svo tvö mörk með tveggja mínútna millibili, Lyn tók forystuna aftur en Vålerenga jafnaði strax.
Það þurfti svo að framlengja leikinn til að ákveða sigurvegara, gestirnir höfðu gefið allt sem þær áttu í nítíu mínútur og urðu að lúta í lægra haldi gegn sterkum andstæðingum í Vålerenga.
Elise Thorsnes skoraði sigurmarkið strax á upphafsmínútum framlengingarinnar og tryggði sigurinn fyrir Vålerenga sem er komið í úrslitaleik bikarsins gegn Rosenborg.