Í tilkynningu segir að Lilja taki við starfinu af Guðjóni Helga Eggertssyni sem hafi gegnt stöðunni um fimm ára skeið.
„Lilja lauk grunn- og meistaranámi í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og doktorsprófi frá orkuverkfræðideild Stanford háskólans í Bandaríkjunum árið 2013. Í doktorsverkefninu rannsakaði Lilja bestu nýtingu jarðhita með því að tengja reiknilíkön við mælingar. Þar þróaði hún aðferð til að meta sprungutengingar á milli borholna með rafleiðni.
Að loknu doktorsnámi tók Lilja við stöðu nýdoktors við Lawrence Berkeley National Laboratory. Þaðan lá leiðin til Tesla í Kaliforníu þar sem hún starfaði sem yfirverkfræðingur í hönnun og þróun við sólarrafhlöðudeild fyrirtækisins. Árið 2016 hóf Lilja störf við jarðhitarannsóknir með notkun gervigreindar við verkfræðideild Háskóla Íslands.
Lilja er uppalin í Reykjavík en var búsett í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum í 11 ár. Eiginmaður hennar er Gregory Zarski og eiga þau tvö börn.
HS Orka er þriðji stærsti orkuframleiðandi landsins en fyrirtækið á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir, Svartsengi og Reykjanesvirkjun, auk Brúarvirkjunar í Biskupstungum og Fjarðarárvirkjana í Seyðisfirði,“ segir í tilkynningunni.