Breska götublaðið Daily Mail hefur eftir ónefndum heimildarmanni að parið hafi ákveðið að kalla þetta gott. Heimildarmaðurinn er sagður náinn parinu og hann segir að það hafi verið Jess sem hafi átt frumkvæðið að sambandsslitunum.
Parið átti ekki sjö dagana sæla í lúxusvillunni á Mallorca í sumar við tökur á tíundu seríu raunveruleikaþáttanna vinsælu. Bjuggust raunar fæstir við að þau myndu bera sigur úr býtum í seríunni en Sammy var duglegur að velta öðrum kvenkostum fyrir sér.
Þá minntist hann jafnframt á það að Jess væri í raun og veru ekki hans týpa. Það kom því mörgum á óvart þegar parið komst alla leiðina í úrslit og enn fleirum á óvart þegar parið hreppti 50 þúsund sterlingspund í vinningsfé, eða því sem nemur rúmum 8,5 milljónum íslenskra króna.
„Hlutirnir hafa breyst síðan þau yfirgáfu villuna. Jess áttaði sig á því að þau væru betur sett sem vinir,“ hefur Daily Mail eftir hinum ónefnda heimildarmanni.