Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir eldsvoðann hafa verið öflugan. Múrhúð flagnaði af veggjum íbúðarinnar og slökkvitæki sprakk, en mikið þarf til að slíkt gerist.
Þremur var bjargað af svölunum, sem eru á efstu hæð hússins og eru auk íbúðarinnar ansi illa farnar.
Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnardeildar hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir slökkviliðið hafa haft á tilfinningunni að brunar af þessu tagi séu að færast í aukana. „Við erum núna nýbyrjuð að taka saman tölfræði, eða skoða okkar gögn, til þess að sjá hvaða tölur eru þarna á bak við,“ segir Aldís.
„Frumtölurnar segja að þetta sé tólfti eldsvoðinn á árinu þar sem að rafhlaupahjól kemur við sögu.“ Aldís segir það talsverða aukningu milli ára en fyrr hafa slíkir brunar ekki orðið fleiri en fimm á ári.
Hvað er best að hafa í huga þegar maður hleður svona tæki?
„Það er að hlaða við sem allra öruggastar aðstæður. Í fjölbýlishúsum eins og þessu myndum við helst vilja sjá þetta inni í sér brunahólfi. Til dæmis hjólageymslum fjölbýlishúsa. Í einbýlishúsum þá gjarnan í bílskúr. En ef ekki er hægt að koma þessu við að passa þá að hlaða ekki þegar fólk er sofandi. Og að það sé reykskynjun í rýminu.“