Erlent

Níu kærðir vegna ó­lög­legra hval­veiða á Græn­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Náhvalurinn er algengastur við strandlengju Kanada og Grænlands og austur eftir strönd Norður-Rússlands.
Náhvalurinn er algengastur við strandlengju Kanada og Grænlands og austur eftir strönd Norður-Rússlands. Getty

Lögregla á Grænlandi hefur kært níu manns vegna gruns um að hafa stundað ólöglegar hvalveiðar við Kullorsuaq á vesturströnd landsins. Talið er að mennirnir hafi veitt allt að tuttugu náhvali um miðjan september.

Sermitsiaq.AG segir lögreglu hafa hafið rannsókn á málinu eftir að hafa fengið tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu um að vísbendingar væru um að allt að tuttugu náhvalir hafi verið veiddir ólöglega.

Veiðin er ólögleg þar sem náhvalsveiðikvótinn í landinu er þegar fullnýttur og hefur veiði verið bönnuð frá fyrri hluta júní síðastliðinn.

Brian Thomsen, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Upernavik, segir að rannsókn sé hafin þar sem lögregla hafi haldið á vettvang ásamt fulltrúum frá ráðuneytinu til að leita gagna og ræða við vitni.

Hann segir að búið sé að kæra níu manns og hafi hald verið lagt á um fjörutíu kíló af hvalspiki. Thomsen segir unnið að því að kortleggja hverjir hafi komið að veiðunum og meta umfang veiðanna.

Náhvalur er tegund tannhvala og er önnur af tveimur tegundum í hvíthvalaætt ásamt mjöldrum. Sérkenni náhvalsins er skögultönn sem vex fram úr höfðinu á fullvöxnum törfum, en fullvaxið karldýr verður alla jafna milli fjórir og sex metrar að lengd og vegur um 1,2 til 1,6 tonn. Hann er algengastur við strandlengju Kanada og Grænlands og austur eftir strönd Norður-Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×