Erlent

Segja 49 hafa fallið í árás á matvöruverslun

Samúel Karl Ólason skrifar
AP23278477564870
AP/Forseti Úkraínu

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir 49 manns hafa fallið í árás Rússa á matvöruverslun og kaffihús í þorpinu Hroza í Karkívhéraði. Sex ára drengur er meðal hinna látnu en minnst sex aðrir særðust í árásinni.

Um er að ræða einhverja mannskæðustu árás í Úkraínu á undanförnum mánuðum.

AFP fréttaveitan segir að fólk hafi verið komið saman í húsinu fyrir minningarathöfn.

Selenskí kallaði árásina vísvitandi hryðjuverkaárás og hvatti bakhjarla Úkraínumanna að hjálpa þeim að styrkja loftvarnir sínar, því stöðva þyrfti „rússnesk hryðjuverk“.

Forsetinn er nú staddur á Spáni á fundi um fimmtíu leiðtoga Evrópu og segist hann ætla að ræða betri loftvarnir við bakhjarla sína. Selenskí heitir því að brugðist verði við þessum árásum.

Frá því innrás þeirra í Úkraínu hófst í febrúar í fyrra hafa Rússar gert ítrekaðar árásir á byggð ból í Úkraínu og fellt fjölmarga óbreytta borgara. Þessar árásir hafa verið gerðar með sprengikúlum, loftárásum, spjálfsprengidrónum og eld- og stýriflaugum, svo eitthvað sé nefnt.

Flugher Úkraínu sagði í dag að Rússar hefðu gert árás með 29 sjálfsprengidrónum frá Íran á suðurhluta Úkraínu í morgun en að 24 þeirra hafi verið skotnir niður.

Þá eru Rússar sagðir hafa gert loftárás á sjúkrahús í Beryslav í Kherson. Tveir heilbrigðisstarfsmenn eru sagðir hafa særst í henni.

Árásum Úkraínumanna á Rússa hefur farið fjölgandi, þó fjöldi þeirra sé ekki sambærilegur árásum Rússa á Úkraínu.

Í yfirlýsingu í dag sagði Selenskí að gífurlega mikilvægt væri að styrkja loftvarnir Úkraínumanna fyrir veturinn. Síðasta vetur gerðu Rússar ítrekaðar árásir á orkuinnviði Úkraínu, með því yfirlýst markmiði að frysta óbreytta borgara, þvinga þá á flótta og reyna að þvinga þá til uppgjafar. Úkraínumenn óttast að árásir þessar muni hefjast á nýjan leik með kaldari tíð.


Tengdar fréttir

Þvinga fjölskyldur til að hlusta á nauðganir

Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) segir sterkar vísbendingar fyrir því að rússneskir hermenn fremji stríðsglæpi í Úkraínu. Rússar hafa pyntað Úkraínumenn til dauða og þvingað fjölskyldur til að hlusta á þegar hermenn nauðguðu konum í næsta herbergi.

Aðmírállinn virðist enn á lífi

Viktor Sokolov, aðmíráll sem leiðir Svartahafslofta Rússlands, virðist ekki hafa fallið í árás Úkraínumanna á höfuðstöðvar flotans í Sevastopol á Krímskaga á föstudaginn, eins og úkraínski herinn hélt fram í gær.

Umfangsmiklar árásir á báða bóga

Úkraínumenn gerðu í gærkvöldi umfangsmikla árás á flugstöð Rússa á Krímskaga. Á sama tíma skutu Rússar fjölmörgum eld- og stýriflaugum sem ætlað var að valda skemmdum á orkuinnviðum Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×