Innlent

Beittu varnar­úða á mann með hníf í austur­bænum

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn hafði verið með hníf fyrir utan hús í austurbæ Reykjavíkur.
Maðurinn hafði verið með hníf fyrir utan hús í austurbæ Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu beitti varnarúða til að yfirbuga mann sem fór ekki að fyrirmælum lögreglu í austurbæ Reykjavíkur á þriðja tímanum í nótt.

Í tilkynningu segir að tilkynnt var um mann með hníf fyrir utan hús í austurbæ Reykjavíkur um klukkan hálf þrjú í nótt og hafi hann svo farið af vettvangi á bíl en verið stöðvaður af lögreglu skömmu síðar.

„Maðurinn fór ekki að fyrirmælum og neyddist lögregla til að beita varnarúða til að yfirbuga manninn. Málsatvik óljós og málið er í rannsókn,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að um klukkan hálf eitt í nótt hafi verið tilkynnt um líkamsárás í hverfi 105 í Reykjavík. Þar hafi lögregla farið á staðinn en málið reynst minniháttar.

Um hálf þrjú í nótt var svo tilkynnt um ógnandi mann í stigagangi fjölbýlishúss. Lögregla fór þar á staðinn og vísaði manninum af vettvangi.

Loks segir að skömmu eftir klukkan fjögur hafi svo verið tilkynnt um mann sem hafi verið að berja á glugga húss í miðborg Reykjavíkur. Maðurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang og voru engar skemmdir eða kröfur á hendur manninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×