Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fólk fer að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Orkustuðullinn minn er hæstur þegar ég vakna klukkan hálfsjö. Það er enginn dagamunur hjá mér og ég fer á fætur um leið og ég opna augun.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Þegar ég fer í ræktina fer ég í æfingafötin, fæ mér tvö vatnsglös og fer út í bíl. Það setur tóninn fyrir daginn, fyllir mig orku og það er góð tilfinning að vera búinn að gera eitthvað fyrir mig. Til að tryggja að allt sem ég þarf yfir daginn fylgi mér er ég með „skotpallinn“ minn tilbúinn á kvöldin. Morgunmatinn og kaffið fæ ég mér svo í vinnunni.
Dagana sem ég fer ekki í ræktina, sest ég aðeins í hægindastólinn og kíki á fréttir eða tölvupóst, fer svo í sturtu og borða hafragrautinn. Svo setjumst við hjónin í sófann og spjöllum yfir kaffibolla.“
Hvenær og hvers vegna fékkstu algjört hláturskast síðast?
Í þessari viku á vikulegum fundi mannauðs- og gæðasviðs. Á fundinum var meðal annars samstarfsmaður sem er eiginlega sköllóttur. Í lok fundarins var hárprýði annars starfsmanns nefnd.
Af mér núna af óskiljanlegum ástæðum þá fann ég mig knúinn til að nefna að ég hefði verið með þykkt og krullað hár ekki fyrir alls löngu síðan. Samstarfskona mín benti mér vinsamlega á að ég væri nú kominn í greiðslustöðvun og fyrrnefndur samstarfsmaður okkar bætti því við að hann væri í greiðsluþroti.
Annars hefur konan mín einstakt lag á því að fá mig til að skella upp úr með sína sýn á hlutum rétt fyrir svefninn.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ferðaþjónustan er mjög spennandi, kvik og skemmtileg grein. Þar að auki erum við með vöruflutningar og bílaleigu, ásamt því að reka nokkrar leiðir fyrir Strætó. Við erum tæplega 600 sem vinnum á dreifðum staðsetningum, með starfsemi alla daga ársins og í sumum deildum á öllum tímum sólarhrings.
Starfsánægja og góð þjónusta til viðskiptavina er sameiginlegt markmið okkar allra, sem allt starfsfólk á hlut í. Það er frábær andi hjá okkur, bæði í framkvæmdastjórn þar sem hvert og eitt okkar býr yfir þekkingu og reynslu á sínu sviði og í mannnauðs- og gæðateyminu þar sem fagmennska og léttleiki ríkja.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Í lok vinnudags fer ég yfir verkefnalistann minn.
Verkefni sem ég hef ekki komist í fá annaðhvort nýja dagsetningu á listanum eða fá úthlutaðan tíma í dagatalinu.
Tólin sem ég nota eru Microsoft ToDo fyrir sjálfan mig, Tasks fyrir verkefni sem ég úthluta, og verkefni teymis fara í Planner.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Orkan næsta dag ræðst af gæði og tíma svefns og ég er frekar kvöldsvæfur. Flesta daga fer ég að sofa milli hálf ellefu og hálf tólf.“