Lífið

Óborganlegt upphaf steypiboðs Berglindar Bjargar

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Berglind á greinilega skemmtilegar vinkonur sem komu henni á óvart í dag.
Berglind á greinilega skemmtilegar vinkonur sem komu henni á óvart í dag.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir hrökk í kút með óborganlegum hætti þegar vinkonur hennar komu henni á óvart með steypiboði í dag. Uppákoman náðist sem betur fer á myndband fyrir þá sem hafa gaman af því að hlæja.

Berglind Björg, sem er samningsbundin PSG í Frakklandi, á von á strák með Kristjáni Sigurðssyni kærasta sínum. Hún er ein af lykilleikmönnum íslenska landsliðsins sem eiga von á barni þessa stundina.

Vinkonur Berglindar, þar á meðal nokkrar knattspyrnukonur, komu Berglindi á óvart í dag. Þær voru búnar að koma sér fyrir í íbúð Berglindar, væntanlega með dyggri aðstoð hennar heittelskaða Kristjáns, og tóku á móti henni þegar hún kom heim.

Eins og sést á myndbandinu að neðan hrökk Berglind ekki bara í kút heldur féll hún aftur fyrir sig og í gólfið.

Ef myndbandið birtist ekki að neðan gæti þurft að endurhlaða síðunni. Fletta þarf til hægri í albúminu.

Eyjamærin Berglind hefur verið alveg skýr með það að hún ætli að snúa aftur á knattspyrnuvöllinn eftir barnsburð. Framherjinn 31 árs gamli hefur komið víða við á sínum ferli og spilað með stórliðum á borð við PSV í Hollandi, AC Milan á Ítalíu og Brann í Noregi. Þá hefur hún spilað fyrir Breiðablik, ÍBV og Fylki hér á landi.

Hún á að baki 72 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 12 mörk. Þar á meðal mark Íslands í 1-1 jafnteflinu gegn Belgíu á EM sumarið 2022.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×