Frá þessu greinir söngkonan í viðtali við Los Angeles Times. Þar var hún meðal annars spurð að því hvert versta lag hennar væri. Upphaflegt svar söngkonunnar var að lagið True Love væri sennilega hennar versta lag, en það fjallar um eiginmann hennar, Carey Hart. Ástæðuna sagði söngkonan vera að lagið væri einfaldlega kvikindislegt í garð Hart.
En það var þá sem hún mundi eftir laginu We've Got Scurvy, sem á íslensku útlistast sem „Við erum með skyrbjúg“. Lagið gerði söngkonan fyrir teiknimyndaþættina um Svamp Sveinsson, en það er skopstæling á lagi hennar, Get The Party Started, og er samið í stíl sjómannavísu.
„Ég vildi að ég hefði ekki gert þetta lag. Það voru stór mistök,“ segir Pink um skyrbjúgslagið, sem var notað í þætti af Svampi Sveinssyni árið 2009.
Í texta lagsins segir meðal annars: „Við erum með skyrbjúg, við þurfum C-vítamín. Við erum með skyrbjúg, við þurfum sítrónutré.“
Eins syngur Pink um að tennur hennar og félaga hennar séu óðum að losna og að enginn sjóræningi teljist maður með mönnum nema hann þjáist af skyrbjúg, sem stafar einmitt af alvarlegum C-vítamínskorti.