Kristín Ólafsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, var í Keflavík þegar vélin lenti og ræddi meðal annars við Aldísi Hafsteinsdóttur, sveitarstjóra Hrunamannahrepps, sem hafði keyrt meðfram landamærunum að Gaza aðeins um fimmtán tímum áður en að árásirnar hófust.
Aldís sagði í samtali við Kristínu að Íslendingarnir hefðu upplifað mikið þakklæti þegar þær fregnir bárust að til stæði að senda flugvél til að ná í þá og að rætt hefði verið hversu heppnir þeir væru. Það væri ekki alls staðar sem innviðir væru til staðar til að taka svona ákvörðun.
„Nei, mér fannst það ekki,“ svaraði Aldís spurð að því hvort hún hefði fundið fyrir hræðslu í hópnum. „Við vorum auðvitað í Jerúsalem og þar var minna um aðgerðir, alla vegna sem við urðum vör við. Við heyrðum tvær þrjár sprengingar og sáum reyk stíga upp úr hverfum en mér leið ekki eins og við værum í beinni hættu. En við fórum ekkert út af hótelinu nema rétt svona í allra nánasta umhverfinu.“
Aldís sagði það hafa verið ótrúlega upplifun að sjá vél Icelandair í norðurljósalitunum á flugvellinum en það hefði líka verið mjög góð tilfinning að vera komin yfir landamærin frá Ísrael til Jórdaníu.
Það væri mikill léttir að vera komin heim.
„Ekki spurning. Jesús minn, já.“