Innlent

Bjarni ekki hæfur til að sam­þykkja sölu Ís­lands­banka

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur áður sagt að sér hafi komið í opna skjöldu að faðir hans, Benedikt Sveinsson fjárfestir, hafi verið meðal kaupenda í útboði á hlutum Íslandsbanka.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur áður sagt að sér hafi komið í opna skjöldu að faðir hans, Benedikt Sveinsson fjárfestir, hafi verið meðal kaupenda í útboði á hlutum Íslandsbanka. Vísir

Um­boðs­maður Al­þingis telur Bjarna Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, ekki hafa verið hæfan þegar hann sam­þykkti til­lögu Banka­sýslunnar um sölu á Ís­lands­banka, í ljósi þess að einka­hluta­fé­lag föður hans var á meðal kaup­enda að 22,5 prósenta hlut.

Þetta er niður­staða um­boðs­manns Al­þingis í á­liti hans 5. októ­ber 2023, sem birt er á vef um­boðs­manns. Eins og fram hefur komið hefur Bjarni boðað til blaða­manna­fundar vegna málsins. Hann hefst klukkan 10:30 og er hægt að fylgjast með honum í beinni á Vísi.

„Að mati um­boðs­manns getur það ekki haggað niður­stöðunni þótt ekkert hafi komið fram sem gefi til­efni til að draga í efa stað­hæfingu ráð­herra um að honum hafi á þeim tíma verið ó­kunnugt um þátt­töku fé­lagsins,“ segir meðal annars í á­liti um­boðs­manns.

Þar segir enn­fremur að þá geti það heldur ekki ráðið úr­slitum þótt hætta á því að ó­mál­efna­leg sjónar­mið hefðu á­hrif á af­stöðu ráð­herra væri minni en ella sökum þess hvernig sölu­með­ferðinni var háttað, þáttur fé­lagsins í heildar­sölunni ó­veru­legur og ganga verði út frá því að það hafi setið við sama borð og sam­bæri­legir bjóð­endur þegar Banka­sýslan tók af­stöðu til ein­stakra til­boða.

Ekki for­sendur til að leggja mat á stað­hæfingu Bjarna

Um­boðs­maður segist ekki telja sig hafa for­sendur til að leggja mat á þá stað­hæfingu ráð­herra að ó­raun­hæft hefði verið að skoða tengsl hans við ein­staka bjóð­endur með hlið­sjón af því hvernig sölunni var fyrir komið.

„Í því sam­bandi bendir hann hins vegar á mikil­vægi þess að undir­búningi mála sé hagað þannig að fram­kvæmd þeirra sam­rýmist lögum. Telji stjórn­völd rök standa til þess að haga beri með­ferð máls á þann hátt að reglur um sér­stakt hæfi eigi ekki við um til­tekin at­riði beri að leita við­eig­andi leiða í því sam­bandi.“

Ráð­herra geti til að mynda lagt fram frum­varp til laga­breytinga í þessu skyni og sé það þá Al­þingis að meta hvort til­teknar að­stæður rétt­læti að til­teknir eða allir þættir máls­með­ferðar séu undan­skildir reglum um sér­stakt hæfi.

Stjórn­sýsla ráð­herra hafi ekki verið nægi­lega góð

Um­boðs­maður segist telja að það hefði verið í betra sam­ræmi við upp­lýsinga­lög og vandaða stjórn­sýslu­hætti að af­staða til þess hvernig reglur um sér­stakt hæfi horfðu við sölunni hefði komið fram í skrif­legum gögnum við undir­búning málsins. Þannig hefði meðal annars Al­þingi gefist kostur á að gera at­huga­semdir við þetta at­riði.

„Ann­markar að þessu leyti hafi skapað hættu á að á­kvörðun ráð­herra um að sam­þykkja til­lögu Banka­sýslunnar um söluna sam­rýmdist ekki reglum um sér­stakt hæfi og þá með þeim af­leiðingum að grafið væri undan trausti al­mennings á þessari ráð­stöfun ríkisins.“

Vísar um­boðs­maður í því til­liti til al­menns til­gangs hæfis­reglna og þeirra mark­miða sem Al­þingi hefur sér­stak­lega stefnt að með lög­gjöf á þessu sviði.

„Það er álit um­boðs­manns að stjórn­sýsla ráð­herra við undir­búning sölu­með­ferðarinnar hafi ekki verið í nægi­lega góðu sam­ræmi við stjórnunar- og eftir­lits­skyldu hans gagn­vart Banka­sýslu ríkisins með til­liti til þess hvernig reglur um sér­stakt hæfi horfðu við. Í þessu sam­bandi tekur um­boðs­maður fram að þáttur Banka­sýslunnar, sem annaðist undir­búning sölunnar, hafi ekki verið til sjálf­stæðrar skoðunar.“

Á­litið verði haft við huga

Um­boðs­maður vísar þá til þess að ráð­herra hafi upp­lýst að unnið sé að nýju reglu­verki um ráð­stöfun ríkisins á hlutum í fjár­mála­fyrir­tækjum og í þeirri vinnu sé meðal annars til skoðunar hvernig að­komu ráð­herra verði best háttað við ráð­stöfun á borð við þá sem hér um ræðir og þá að fenginni reynslu og þeim lær­dómi sem dreginn verði af henni.

„Um­boðs­maður mælist til þess að ráð­herra hafi á­litið í huga við þessa endur­skoðun sem og frekari sölu hluta í fjár­mála­fyrir­tækjum. Þá er á­réttað að með um­fjöllun sinni hafi um­boðs­maður ekki tekið af­stöðu til hugsan­legra einka­réttar­legra af­leiðinga þeirra laga­legu ann­marka sem um er fjallað.“


Tengdar fréttir

Segir föður sinn hafa keypt í trássi við sína ósk

Fjármála- og efnahagsráðherra kveðst hafa beðið sitt nánasta fólk um að taka ekki þátt í útboðinu á Íslandsbanka á síðasta ári. Það hafi ekki hvarflað að sér að faðir sinn myndi samt gera það. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×