Innlent

Katrín segir hugsan­legt að Bjarni taki annað ráðu­neyti

Vésteinn Örn Pétursson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Bjarni og Katrín í aðdraganda kosninganna 2021.
Bjarni og Katrín í aðdraganda kosninganna 2021. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra segir ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að segja af sér ráðherraembætti vera virðingarverða og rétta. Ákvörðunin hafi þó alfarið komið frá honum sjálfum. Stjórnin standi traustum fótum og ekki sé von á kosningum. Hugsanlega komi Bjarni til með að taka við öðru ráðherraembætti.

„Þetta er auðvitað mjög stór ákvörðun sem fjármála- og efnahagsráðherra tekur, og hann fór mjög vel yfir hana á blaðamannafundi morgunsins,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, um þá ákvörðun Bjarna Benediktssonar að segja af sér embætti. 

Bjarni kynnti ákvörðunina á blaðamannafundi í morgun, þar sem hann sagði ástæðuna vera álit Umboðsmanns Alþingis um söluna á Íslandsbanka. Niðurstaða Umboðsmanns var sú að í ljósi þess að faðir Bjarna var á meðal kaupenda hefði Bjarna brostið hæfi þegar hann samþykkti tillögu Bankasýslunnar um söluna. Bjarni fór á fundinum yfir þær athugasemdir sem hann hafði við álit Umboðsmanns, en sagðist engu að síður munu virða það og axla ábyrgð, áður en hann tilkynnti um afsögn sína. 

„Mér finnst þetta ákvörðun sem er mjög virðingaverð. Mér finnst fjármálaráðherra á öllum stigum þessa máls, þó hann hafi verið gagnrýndur, hafa leitast við að axla ábyrgð á þessari framkvæmd. Kannski má segja að sú ábyrgð hafi orðið endanleg í dag, með þessari ákvörðun,“ segir Katrín.

Aðspurð hvort henni sjálfri hafi þótt rétt að Bjarni segði af sér í þessari stöðu sagði Katrín ákvörðunina alfarið Bjarna að taka.

„En ég hef mikinn skilning á þessari ákvörðun og virði hana. Að sjálfsögðu ræddum við þetta áður og auðvitað eru alls konar hliðar á þessu. En ég tel að hann hafi gert rétt með þessu,“ segir Katrín. Hún hafi hvorki krafist þess né óskað eftir að Bjarni myndi víkja. 

Stór verkefni fram undan

Formenn stjórnarflokkanna ræddu málin í Stjórnarráðinu í dag. Spurð hvað þeirra fór í milli segir Katrín að formennirnir þrír hafi einfaldlega þurft að fara yfir stöðuna.

„Eðli málsins samkvæmt hefur það áhrif á samstarf þessara flokka þegar formaður eins flokksins ákveður að víkja úr sínu embætti.“

Ríkisstjórnin takist nú á við stór verkefni, einkum og sér í lagi efnahagsmálin. 

Stór pólitísk ákvörðun

Katrín segir ekki hafa komið til tals milli sín og Bjarna að til afsagnar hans kæmi, ef niðurstaða Umboðsmanns yrði sú sem síðar varð raunin. 

„Hins vegar upplýsti fjármálaráðherra mig um þetta álit fyrir fram, og við ræddum það bara eins og samstarfsmenn gera, þeir ræða málin frá ólíkum hliðum. Að lokum er þetta hans ákvörðun og ég held að hún sé ansi stór í pólitísku samhengi.“

Katrín telji ríkisstjórnarsamstarfið standa traustum fótum, og segir að forystulið ríkisstjórnarinnar sé enn það sama, þrátt fyrir afsögn eins formanna úr embætti. Næstu dagar fari í að fara yfir stöðu efnahagsmála og framhaldið. Í kjölfarið verði boðað til ríkisráðsfundar þar sem afsögn Bjarna fari í formlegt ferli.

Þú átt ekki von á því að ríkisstjórnin muni springa á næstu dögum vegna þessarar ákvörðunar?

„Nei. Ég held að við séum sammála um að við viljum leggja mikið á okkur til þess að takast á við þessu stóru verkefni,“ segir Katrín.

Nýr fjármálaráðherra fái vinnufrið

Fjármálaráðherra sagði á fundinum í dag að ekkert lægi fyrir um hvort hann tæki við öðru ráðherraembætti, sæti áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins eða sæti áfram á þingmanni. Aðspurð hvort hún væri fylgjandi því að Bjarni tæki við öðru ráðuneyti sagði Katrín að ákvörðunin sem kynnt var í dag snerist fyrst og fremst um fjármálaráðuneytið.

„Að fjármálaráðherra fái vinnufrið og að hann axli sína ábyrgð á því sem lýtur að þessari framkvæmd á sölunni á Íslandsbanka. Það er ekkert útilokað um framhaldið í því.“

Ekki hafi verið rætt hvort Bjarni taki við öðru ráðuneyti. Það sé vel hugsanlegt, en hafi ekki verið rætt. 

Því hefur meðal annars verið velt upp að Bjarni taki við utanríkisráðuneytinu, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir taki við fjármálaráðuneytinu. Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í dag að hann teldi mikið til í þeim vangaveltum.

Hafa ekki rætt hver fær fjármálaráðuneytið

Bjarni er ekki eini ráðherrann sem Umboðsmaður Alþingis hefur verið með til skoðunar, en hann er einnig með til athugunar hvort Svandís Svavarsdóttir hafi gerst brotleg við stjórnsýslulög þegar hún setti reglugerð sem bannaði hvalveiðar snemma í sumar.

Katrín sagðist hafa heyrt vangaveltur um að ef Umboðsmaður finni sambærilega vankanta á framkvæmd Svandísar megi vænta þess að hún segi einnig af sér. Það taki þó engu tali að ræða um það að svo stöddu.

Umboðsmaður Alþingis hefur skilað áliti um vanhæfi Bjarna í Íslandsbankasölunni. Nú skoðar hann hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur.Vísir/Arnar

„Ég hef heyrt vangaveltur um þetta í dag. Auðvitað er það þannig að Umboðsmaður er oft með ansi marga ráðherra til skoðunar, og embættisfærslur okkar. Ég held að það hafi nú lítið upp á sig að vera að tjá sig um slík mál í einhverjum viðtengingarhætti. Þessi mál geta verið eðlisólík og annað, þannig að við skulum bara bíða og sjá með það.“

Munu Vinstri græn vilja fá fjármálaráðuneytið?

„Við höfum ekki rætt málin út frá þessum forsendum. Á fundi okkar þriggja [formanna ríkisstjórnarflokkanna] í dag þá vorum við fyrst og fremst að ræða stóru myndina, verkefnin og hvernig við getum tryggt það að við förum sterkari út úr þessu en við fórum inn í það,“ segir Katrín.

Hún eigi ekki von á að boðað verði til kosninga fyrr en til hafði staðið, en miðað við fullt kjörtímabil eru næstu Alþingiskosningar á dagskrá haustið 2025.

„Það hefur ekkert gerst sem kallar á það, allavega að sinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×