Björgunarsveitir voru kallaðar út víða um land nú í nótt vegna verkefna tengdum óveðrinu sem gekk yfir landið. Fjölmennasta verkefnið tengdist útkalli vegna tveggja manna sem höfðu fest bíl sinn að Fjallabaki. Pálmar Atli Jóhannesson, formaður björgunarsveitarinnar Stjörnunnar í Skaftártungu, fór á vettvang ásamt um fimmtán manna hópi björgunarfólks.
„Það var náttúrulega bara snarvitlaust veður, hátt í þrjátíu metrar á sekúndu og sandfok mikið á Mælifellssandi,“ segir Pálmar.
Mennirnir, ferðamenn, höfðu setið fastir í bílnum í talsverðan tíma þegar björgunarsveitin fann þá.
„Bíllinn var orðinn æði fastur, fastur í krapa og sat á kviðnum. Þannig að hann var eiginlega má segja frosinn niður. Það var átak að ná að losa hann en þegar hann var orðinn laus þá var nú bara þægileg færð niður úr,“ segir Pálmar.
Veðrið lét einnig rækilega til sín taka á austanverðu landinu. Hjalti Bergmar Axelsson aðalvarðstjóri hjá lögreglu á Egilsstöðum segir átta erlenda ferðamenn hafa gist í fjöldahjálparstöð á Djúpavogi í nótt. Veður hafi verið sérlega vont þar um slóðir og hviður farið yfir fjörutíu metra á sekúndu.
Norðvestanstormur gærdagsins er nú genginn niður, síðustu gulu viðvaranirnar á Austfjörðum og Suðausturlandi féllu úr gildi nú um hádegi. Annar hvellur er þó væntanlegur; gul hríðarviðvörun tekur gildi á vestan- og sunnanverðu landinu nú í nótt, aðfaranótt fimmtudags, og búast má við stormi við suðurströndina fram yfir hádegi á morgun.