Sport

Spilaði ör­fáum dögum eftir hræði­legt bruna­slys: „Harðasti maðurinn í NFL“

Valur Páll Eiríksson skrifar
David Njoku er illa útleikinn eftir slysið.
David Njoku er illa útleikinn eftir slysið. Samsett/Twitter/Getty

David Njoku, innherji Cleveland Browns í NFL-deildinni, hefur birt mynd af alvarlega brenndu andliti sínu eftir slys sem varð heima hjá honum á dögunum. Hann mætti í leik aðeins örfáum dögum eftir slysið en bar þá grímu sem huldi andlit hans.

Slysið varð heima hjá hinum 27 ára gamla Njoku er undirbjó að kveikja upp í eldstæði úti í garði. Ekki er vitað nákvæmlega hversu alvarleg brunasár hans eru en hann brann illa á andliti, hálsi og höndum.

Ótrúlegt en satt spilaði hann leik Browns við Baltimore Ravens aðeins tveimur dögum síðar, í fjórðu umferð NFL-deildinnar. Degi fyrir leik, eftir að fréttir láku út af meiðslum hans, deildi hann á samfélagsmiðlinum X: „Holdið er veikt. Sé ykkur á morgun.“

Njoku hitar upp fyrir leikinn við Ravens.Getty

Njoku bar heljarinnar grímu þegar hann mætti á völlinn í stíl við loðfeld. Hann hafði svo lambhúshettu fyrir vitunum á meðan hann hitaði upp fyrir leikinn og á meðan á honum stóð.

Njoku, sem er á sínu sjöunda tímabili með Cleveland, hefur gripið tíu bolta fyrir 92 stikum á þessu tímabili. Kevin Stefanski þjálfari sagði á fyrr í vikunni að Njoku hafi verið mikilvægur póstur hjá liðinu það sem af er tímabili.

Stuðningsmenn liðsins hafa þá hrósað Njoku í hástert fyrir skuldbindingu sína við félagið með því að spila svo skömmu eftir slysið.

„Harðasti maðurinn í NFL-deildinni,“ sagði einn á X-inu og annar: „Að þú hafir spilað eftir þessa uppákomu gerir þið að algjörri goðsögn.“

Njoku bar þessa grímu þegar hann mætti á völlinn.Getty
NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×