Blinken, sem mun funda með ráðamönnum í Ísrael í dag og með forseta Palestínu á morgun, sagðist skilja persónulega þá endurómun sem fylgdi í kjölfar voðaverka Hamas, fyrir gyðinga í Ísrael og út um allan heim.
„Of oft í fortíðinni hafa leiðtogar verið tvístígandi gagnvart hryðjuverkaárásum gegn Ísrael og ísraelsku þjóðinni. Þetta er, verður að vera, stund siðferðilegrar uppljómunar,“ sagði Blinken.
Utanríkisráðherrann sagði ríkisborgara 36 ríkja hafa verið myrta í árás Hamas á laugardaginn, eða saknað. Þá sagði hann 25 bandaríska ríkiborgara hafa verið meðal 1.200 látnu.
„Allir sem vilja frið og réttlæti verða að fordæma ógnarstjórn Hamas,“ sagði Blinken.
Hann sagði ómögulegt að sjá myndir af fjölskyldum sem hefðu verið myrtar og hugsa ekki um eigin börn. „Börnum slátrað, lík lítilsvirt, ungt fólk brennt lifandi, konum nauðgað, foreldrar teknir af lífi fyrir framan börn þeirra, börn fyrir framan foreldrana. Hvernig eigum við að geta skilið þetta?“ sagði ráðherrann.
Hann lofaði hugrekki Ísraelsmanna og sagði þá mögulega nógu sterka til að verjast upp á eigin spýtur „en á meðan Bandaríkin verða til munið þið aldrei nokkurn tímann þurfa þess“.
Blinken sagði aðeins eitt á stefnuskrá Hamas; að myrða gyðinga og tortíma Ísrael. Ísraelsmenn hefðu fullan rétt á því að grípa til varna en það skipti máli hvernig þeir gerðu það. Freista þyrti þess í lengstu lög að þyrma óbreyttum borgurum.
Netanyahu þakkaði Blinken og Bandaríkjunum, bæði á hebresku og ensku, og líkti Hamas við Ríki íslam.
„Biden hafði rétt fyrir sér þegar hann talaði um algjöra illsku,“ sagði forsætisráðherrann. „Hamas mun sæta sömu örlögum og Isis. Það á að hrækja þeim úr samfélagi þjóðanna. Þetta er tími þar sem við þurfum að standa keik og sameinuð gagnvart hinu illa. Við erum að taka afstöðu. Bandaríkin eru að taka afstöðu.“