Erlent

Segja 338 þúsund á vergangi og ástandið mjög alvarlegt

Samúel Karl Ólason skrifar
Særður maður fluttur á sjúkrahús eftir loftárás á Gasaströndinni í dag.
Særður maður fluttur á sjúkrahús eftir loftárás á Gasaströndinni í dag. AP/Hatem Ali

Sameinuðu þjóðirnar segja fjölda þeirra sem eru á vergangi á Gasaströndinni hafa aukist um þriðjung á einum sólarhring. 338 þúsund manns hafa misst heimili sín í árásum Ísraelsmanna frá því á laugardaginn en ísraelski herinn hefur varpað rúmlega sex þúsund sprengjum á Gasaströndina á síðustu sex dögum.

Um 2,3 milljónir manna búa á Gasasvæðinu, sem er talið eitt þéttbýlasta svæði heims.

Ísraelar ætla ekki að veita íbúum Gasastrandarinnar aftur aðgang að vatni og rafmagni, né leyfa birgðaflutninga inn á svæðið, fyrr en Hamas-liðar hafa sleppt fólkinu sem þeir tóku í gíslingu í árásum þeirra á laugardaginn. Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök vara við því að ástandið sé mjög alvarlegt á Gasa.

Einn talsmanna ísraelska hersins sagði í dag að verið væri að undirbúa innrás á Gasaströndina, verði slík skipun gefin. Líklegt er að innrás verði gerð en ráðamenn í Ísrael hafa sett sér það markmið að gera útaf við Hamas-samtökin og bana hverjum einasta Hamas-liða.

Talsmaður Hamas-samtakanna sagði í dag að ef Ísraelski herinn gerði innrás, yrði honum eytt.

Heilbrigðisráðuneyti Gasa sagði í dag að 1.417 manns hefðu fallið í árásum Ísraelsmanna og að rúmlega sex þúsund hefðu særst. Ráðuneytið, sem er stýrt af Hamas, tilgreinir ekki hve margir þeirra sem hafa dáið voru Hamas-liðar en Ísraelar segjast hafa fellt um 1.500 þeirra.

Sjá einnig: Óttast að spítalinn breytist í lík­hús

Árásir Hamas-liða á laugardaginn og sunnudaginn kostuðu rúmlega 1.200 manns lífið í Ísrael og þar af eru tæplega tvö hundruð hermenn.

Ísraelski herinn birti í dag myndband frá því á laugardaginn þegar sérsveitarmenn endurtóku landamærastöð við Gasaströndina, sem hafði fallið í hendur Hamas-liða um morguninn.


Tengdar fréttir

Um­mæli Biden skýrð og enn ó­ljóst hvort börn voru af­höfðuð

Talsmenn Hvíta hússins í Washington hafa neyðst til að skýra ummæli Joe Biden Bandaríkjaforseta, sem sagði í gær að hann hefði aldrei trúað því að hann myndi fá þær fregnir að börn hefðu verið afhöfðuð og þurfa að sjá myndir því til staðfestingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×