Innlent

Starfs­maður Laugar­nes­skóla hand­tekinn eftir „alvarlegt atvik“

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn er starfsmaður Laugarnesskóla.
Maðurinn er starfsmaður Laugarnesskóla. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður Laugarnesskóla var handtekinn í gær eftir alvarlegt atvik í skólanum á milli starfsmannsins og nokkurra barna.

„Ég vil upplýsa ykkur um að í gær kom upp alvarlegt atvik í skólanum á milli starfsmanns og nokkurra barna. Þegar hefur verið haft samband við hlutaðeigandi foreldra og er málið unnið í samráði við þau,“ segir í tölvupósti til foreldra barna í skólanum frá Birni Gunnlaugssyni skólastjóra, sem barst síðdegis.

Þá segir að viðkomandi starfsmaður sé kominn í leyfi á meðan málið er í rannsókn.

Vísir fékk veður af því í gær að karlmaður hefði verið handtekinn og leiddur inn í lögreglubifreið við skólann í gær. Björn kvaðst ekkert geta tjáð sig um málið.

Ásmundur Rúnar Gylfason, stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu, staðfesti í samtali við fréttastofu að karlmaður hefði verið handtekinn en sagði að hann gæti ekki tjáð sig frekar um málið.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, staðfesti svo í morgun að málið væri komið á borð deildarinnar. Málið væri á því stigi að hann gæti ekkert tjáð sig frekar um það. Hann ítrekaði það í samtali við Vísi nú síðdegis, eftir að tölvupósturinn barst foreldrum.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is eða í tölvupósti á einstaka blaðamenn. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×