Innlent

Eldur kviknaði í brunn­bát við bryggjuna í Bíldu­dal

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Mynd frá 2020 af bryggjunni á Bíldudal þar sem kviknaði í kvöld í brunnbáti.
Mynd frá 2020 af bryggjunni á Bíldudal þar sem kviknaði í kvöld í brunnbáti. Vísir/Vilhelm

Eldur kviknaði í dælurými í brunnbát við bryggjuna í Bíldudal á tíunda tímanum í kvöld. Vélstjóri náði að slökkva eldinn með slökkvitæki og enginn slasaðist. Slökkvilið Vesturbyggðar tók síðan við að reykræsta.

Slökkvilið var ræst út frá Patreksfirði og Tálknafirði en var flestum snúið við þegar í ljós kom að áhöfninni hafði tekist að ráða að niðurlögum eldsins. Einn slökkvibíll fór á vettvang til reykræstingar.

„Það virðast hafa brunnið vírar í dælurými fremst í skipinu sem skapaði óhemjumikinn reyk. Vélstjórinn náði að slökkva allt með slökkvitæki,“ sagði Valdimar Bernódus Ottósson, slökkviliðsmaður hjá Slökkviliði Vesturbyggðar og starfsmaður Arnarlax.

„Þetta var ekkert stórmál þannig við erum bara að reykræsta núna,“ sagði Valdimar. „Bara rafmagnseldur í töflu sem náði sem betur fer ekki að breiða neitt úr sér.“

„Þetta er stórt skip, brunnbátur sem flytur lax í fiskvinnsluna á Bíldudal,“ sagði Valdimar aðspurður út í skipið.

Þannig það gæti haft áhrif á hana?

„Hefði getað gert það en þetta var bara í dælurými fremst í skipinu sem hefur ekki áhrif skilst mér. Ég held að þeir séu með hundrað tonn af laxi um borð. Enda hljóp ég fótalaust út,“ sagði Valdimar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×