Erlent

Hafi þrjár klukku­stundir til að flýja Gasa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Palestínumenn aðstoða særða í rústum eftir loftárásir Ísraelsmanna í flóttamannabúðum sem kenndar eru við Rafah.
Palestínumenn aðstoða særða í rústum eftir loftárásir Ísraelsmanna í flóttamannabúðum sem kenndar eru við Rafah. AP Photo/Hatem Ali

Þúsundir Palestínu­manna halda á­fram að flýja frá norður­hluta Gasa­strandar í að­draganda inn­rásar Ísraels­hers. Herinn hefur til­kynnt að inn­rásin verði gerð á landi, í lofti og af sjó. Íranir hafa hótað Ísraels­mönnum að bregðast við haldi Ísraelar á­fram hernaði sínum gegn Gasa.

Í um­fjöllun breska ríkis­út­varpsins kemur fram að Ísraels­her hafi ekki veitt ná­kvæmari upp­lýsingar um að­gerðir sínar og hve­nær af á­rásinni verður. Borgurum hefur verið gert af hernum að nýta sér einn veg sem liggur frá Beit Khanoun til Khan Yunis. Eiga þeir að nýta veginn til flótta á milli klukkan 10:00 og 13:00 að staðar­tíma í dag og heitir herinn því að loft­á­rásum verði ekki beitt þar í grennd á meðan.

Upp­runa­lega gaf Ísraels­her borgurum 24 klukku­stundir á föstu­dag til þess að flýja norður­hluta Gasa. Sá tíma­rammi rann út síð­degis í gær en enn hefur Ísraels­her ekki látið verða af árás sinni. Þúsundir ísraelskra her­manna hafa komið saman við landa­mærin og heim­sótti Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísrael, þá í gær og lofaði því að þeim yrði veittur allur stuðningur sem Ísraels­ríki gæti veitt þeim.

Í hið minnsta 1300 Ísraels­menn hafa látist vegna á­rása Hamas liða og 3400 eru særðir. Ó­ljóst er hve mörgum gíslum Hamas liðar halda á Gasa­ströndinni. Þá hafa í hið minnsta 2329 Palestínu­menn látist í á­tökunum og rúm­lega tíu þúsund manns slasast í loft­á­rásum Ísraels­manna. Tugir þúsunda íbúa á Gasa hafa yfir­gefið heimili sín.

Hættan eykst á að á­tökin breiðist út

Þá greina ísraelskir miðlar frá því að írönsk stjórn­völd hafi sent þeim ísraelsku skila­boð vegna á­rása Ísraela á Gasa­ströndina. Segjast þau munu skerast í leikinn ef Ísrael lætur ekki af á­rásum sínum.

Utan­ríkis­ráð­herra landsins, Hossein Amir Abdollahian er sagður hafa hitt Tor Wennes­land, erind­reka Sam­einuðu þjóðanna í Mið­austur­löndum í Beirút í gær. Hann er sagður hafa lýst því yfir að írönsk stjórn­völd væri mikið í mun um að koma í veg fyrir að á­tökin breiddust út en hefðu sín tak­mörk, sér­stak­lega ef Ísraels­menn myndu gera inn­rás inn á Gasa­strönd.

Íranir hafa í gegnum árin í­trekað stutt Hamas sam­tökin á Gasa­ströndinni í stríði þeirra gegn Ísrael, sem og Hisbolla í Líbanon. Ísraelsk stjórn­völd hafa sakað þau írönsku um að styrkja víga­hópa í Sýr­landi um vopn og létu meðal annars til skara skríða í gær­kvöldi gegn flug­völlum í landinu.

Sögðu heimildar­menn Reu­ters að ljóst væri að ísraelsk stjórn­völd væru með þessu að hefta birgða­flutningar frá Íran til Sýr­lands. Nokkrir dagar eru síðan að Ísraels­her gerði loft­á­rásir á flug­velli í landinu, í von um að eyði­leggja flug­brautir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×