Fótbolti

Skipting Heimis gerði gæfumuninn í sigri Jamaíku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson var ráðinn þjálfari jamaíska landsliðsins fyrir rúmu ári.
Heimir Hallgrímsson var ráðinn þjálfari jamaíska landsliðsins fyrir rúmu ári. getty/Omar Vega

Strákarnir hans Heimis Hallgrímssonar í jamaíska fótboltalandsliðinu héldu áfram á sigurbraut þegar þeir lögðu Haítí að velli, 2-3, í B-riðli A-deildar Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameríku.

Með sigrinum tryggðu Jamaíkumenn sér sigur í B-riðlinum en fyrir leikinn voru þeir öruggir með sæti í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar.

Jamaíka sigraði Grenada á fimmtudaginn, 1-4, og fylgdi því svo eftir með því að vinna Haítí í nótt.

Heimamenn komust yfir á 15. mínútu með marki Frantzdys Pierrot en Demerai Gray jafnaði fyrir gestina þremur mínútum síðar. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Heimir setti Shamar Nicholson inn á í hálfleik og hann þakkaði traustið með því að skora á 57. mínútu. Níu mínútum síðar vænkaðist hagur Jamaíkumanna enn frekar þegar Leon Bailey, leikmaður Aston Villa, skoraði þriðja mark þeirra. Pierrot minnkaði muninn þremur mínútum fyrir leikslok en nær komust Haítar ekki.

Jamaíka vann þrjá af fjórum leikjum sínum í B-riðli og gerðu eitt jafntefli. Liðið skoraði tíu mörk og fékk á sig fimm.

Á morgun kemur í ljós hverjum Jamaíka mætir í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar sem fara fram í nóvember. Sigurvegarar leikjanna í átta liða úrslitum tryggja sér ekki bara sæti í undanúrslitum heldur komast einnig í Suður-Ameríkukeppnina á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×