Fótbolti

Stór­kost­legt mark Davíðs tryggði Ís­landi sigur: Adam Ingi varð hetja liðsins

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik u21 árs landsliðs Íslands fyrr á árinu
Frá leik u21 árs landsliðs Íslands fyrr á árinu Vísir/Hulda Margrét

Undir 21 árs lands­lið Ís­lands í fót­bolta vann í dag afar sætan 1-0 sigur á Litháen í undan­keppni EM 2025. Sigur­mark Ís­lands, skorað af Davíð Snæ Jóhanns­syni var einkar glæsi­legt og þá reyndist vara­mar­k­vörður liðsins, Adam Ingi, hetjan undir lok leiks.

Ís­lenska liðið kom inn í leik dagsins með fullt hús stiga eftir 2-1 sigur gegn Tékk­landi í fyrstu um­ferð undan­keppninnar.

Litháen hafði hins vegar leikið tvo leiki í riðlinum og tapað þeim báðum, naum­lega gegn sterku liði Dan­merkur og svo gegn Wa­les.

Leikið var í Litháen og mættu heima­menn af krafti í leikinn. Liðin skiptust á að sækja en án árangurs í fyrri hálf­leik.

Það varð fljótt ljós í seinni hálf­leik að eitt­hvað sér­stakt þyrfti að gerast til þess að fyrsta markið myndi líta dagsins ljós og það gerðist á 67. mínútu.

Þá barst boltinn til Davíðs Snæs Jóhanns­sonar rétt fyrir utan víta­teig. Hann smellti boltanum upp í fjær­hornið og kom Ís­landi yfir. Stór­kos­legt mark hjá FH-ingnum.

Klippa: Stórkostlegt mark Davíðs Snæs tryggði Íslandi sigur

Það dró svo til tíðinda á 74.mínútu þegar að Lúkas Peters­son, mark­vörður Ís­lands braut á sóknar­manni Litháen. Dómari leiksins dæmdi víta­spyrnu og rak Lúkas af velli með rautt spjald.

Þarna fengu heima­menn frá Litháen kjörið tæki­færi til þess að jafna leikinn en Adam Ingi Bene­dikts­son, sem kom inn í mark Ís­lands fyrir Lúkas, gerði sér lítið fyrir og varði víta­spyrnu Armandas Ku­cys.

Klippa: Lúkas rekinn af velli með rautt spjald - Adam Ingi steig upp og vann hetjudáð

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og vann ís­lenska lands­liðið því afar sætan sigur á Litháen sem gerir það að verkum að liðið er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í undan­keppninni og situr liðið í efsta sæti I-riðils en það gæti breyst síðar í kvöld og veltur á því hvernig leikur Tékka og Dana fer.

Ís­land mætir næst Wa­les í undan­keppninni á úti­velli þann 16.nóvember næst­komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×