Innlent

Í forstjórastól eftir að hafa setið í öllum mögulegum stólum

Árni Sæberg skrifar
Elísabet Dolinda hefur gegnt ýmsum verkefnum hjá Geislavörnum ríkisins.
Elísabet Dolinda hefur gegnt ýmsum verkefnum hjá Geislavörnum ríkisins. Stjórnarráðið/Vísir/Vilhelm

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Elísabetu Dolindu Ólafsdóttur forstjóra Geislavarna ríkisins frá 1. desember næstkomandi. Frá árinu 2016 hefur hún gegnt starfi aðstoðarforstjóra stofnunarinnar samhliða hlutverkum gæðastjóra og starfsmannastjóra.

Í tilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu segir að ráðgefandi hæfnisnefnd hafi metið Elísabetu Dolindu mjög vel hæfa til að gegna embættinu.

Þar segir jafnframt að Elísabet Dolinda sé með meistaragráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands og stundi nú nám í opinberri stjórnsýslu við sama skóla. 

Hún hafi starfað hjá Geislavörnum ríkisins frá árinu 1991 og komið þar að flestum þeim verkefnum sem undir stofnunina heyra, þar með talið vöktun, viðbúnaði og eftirliti með geislavirkum efnum og geislatækjum. 

Árið 2007 hafi Elísabet Dolinda tekið við starfi gæðastjóra stofnunarinnar. Frá árinu 2016 hafi hún gegnt starfi aðstoðarforstjóra samhliða hlutverkum gæðastjóra og starfsmannastjóra. Síðastliðna mánuði hafi hún enn fremur sinnt stöðu fjármálafulltrúa stofnunarinnar.

Heilbrigðisráðherra hafi skipað þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Sem fyrr segir hafi nefndin metið Elísabetu Dolindu mjög vel hæfa og segir í álitsgerð ljóst að hún hafi alla burði til að gegna hlutverki forstjóra Geislavarna ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×