Innlent

Fjórum F-16 flogið til Íslands á morgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugsveitin telur 120 liðsmenn og notast við fjórar F-16 orrustuþotur.
Flugsveitin telur 120 liðsmenn og notast við fjórar F-16 orrustuþotur. Utanríkisráðuneytið/Flugher Bandaríkjanna

Bandarísk flugsveit kemur með fjórar F-16 orrustuþotur til landsins á morgun og mun taka við loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Umrædd sveit kemur frá Þýskalandi og telur 120 liðsmenn.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að flugsveitin muni fara héðan um miðjan nóvember og til standi að halda aðflugsæfingar á Akureyri og Egilsstöðum milli 21. og 27. október.

Flugsveitin mun hafa aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þar sem fyrir eru flugsveitir frá bandamönnum Íslands í Atlantshafsbandalaginu og sinna kafbátaeftirliti og rafrænu eftirliti.

Í áðurnefndri tilkynningu segir að framkvæmd loftrýmisgæslunnar verði með sama fyrirkomulagi og undanfarin ár. Varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands annast framkvæmd gæslunnar í samstarfi við Isavia og í umboði utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×