Í Melabúðinni voru þónokkur nöfn lögð til í umræðunni. Fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, Lars Lagerbäck er ásamt Ole Gunnar Solskjær talinn vænlegur kostur. Það er spurning hvort stjórn KR hafi heyrt í þeim.
Einhverjir sjá á eftir Óskari Hrafni Þorvaldssyni sem var sterklega orðaður við heimkomu í Vesturbæinn og Blikinn Vignir Baldursson, sem spilaði rúmlega 130 leiki í efstu deild fyrir Breiðablik, þykir bestur til verksins samkvæmt dóttur hans.
Leikarinn Ingvar E. Sigurðsson er nefndur en hann vakti athygli fyrir túlkun sína á handboltaþjálfaranum Skarphéðni í þáttunum Afturelding á RÚV fyrr á árinu. Burtséð frá árangri myndi fæstum leiðast að sjá Ingvar, hvað þá í karakter, á hliðarlínunni að Meistaravöllum.
Hafsteinn Egilsson, sem rekur Rauða ljónið, vill sjá Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, snúa baki við kaldranalegum heimi stjórnmálanna og koma heim í hlýjan faðm Frostaskjólsins. Willum þjálfaði KR áður í tvígang - frá 2002 til 2004 og 2016 til 2017.
Þá þykir einnig kominn tími á kvenkyns þjálfara í efstu deild. Elísabet Gunnarsdóttir, sem er á förum frá Kristianstad eftir áralangt starf, sé í því samhengi draumakandídat.
Innslagið má sjá í spilaranum að ofan.
Viðmælendur eru Björg Ragnheiður Vignisdóttir, Sveinn Bjarki Tómasson, Fannar Pétur Pálmason, Gísli Marteinn Baldursson, Arnar Dan Kristjánsson, Hafsteinn Egilsson og Úlfhildur Eysteinsdóttur ásamt syni hennar Arnviði.