David Tronnes var gefið að sök að verða Shanti Cooper að bana með því að beita hana barsmíðum og kyrkja hana á heimili þeirra í Orlando-borg árið 2018. Hann tilkynnti lögreglu sjálfur um andlátið í gegnum neyðarlínuna, en sagðist hafa komið að henni látinni.
Fjallað er um málið í mörgum Bandarískum miðlum, en í þeim kemur fram að við yfirheyrslu hafi lögregluþjónn sakað Tronnes um að þykjast gráta þegar hann hringdi á lögreglu. Þá hafi hann ekki sýnt vott af iðrun.
Fram kemur að þau hafi kynnst árið 2013 og gift sig ári fyrir morðið. Þá hafi Tronnes eytt þúsundum dollara í að gera upp heimili þeirra í von um að komast í raunveruleikaþáttinn Zombie House Renovations.
Hins vegar á Cooper að hafa verið mótfallinn þeirri hugmynd. Það á að hafa farið verulega fyrir brjóstið á Tronnes og er sögð vera ástæðan fyrir því að hann framdi morðið.
Tronnes bar ekki vitni fyrir dómi, en fram kemur að það hafi tekið kviðdóminn skamma stund að ákveða að hann yrði sakfelldur. Dómarinn ákvað að Tronnes yrði dæmdur í lífstíðarfangelsi, en fjölskylda Cooper hafði óskað eftir því að hann myndi ekki fá dauðarefsingu.