Innlent

Ís­lensk stjórn­völd stút­full af hræsni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Erpur Eyvindarson á mótmælunum í dag.
Erpur Eyvindarson á mótmælunum í dag. Vísir/Ívar

Fjölmenn samstöðuganga var gengin til stuðnings Palestínu í dag. Gangan endaði á kröftugum samstöðufundi á Austurvelli. Einn mótmælenda segir íslensk stjórnvöld hræsnara.

Kröfurnar skýrar

Fundurinn var haldinn til stuðnings íbúum Palestínu. Mikil samstaða var meðal þeirra sem mættu og hlýddu á ræður. Á mælendaskrá var meðal annars Drífa Snædal, talskona Stígamóta.

„Erindi mitt var að draga upp aðra mynd af palestínsku þjóðinni en dregin er upp í vestrænum fjölmiðlum. Þá mynd sem ég þekki sjálf af kynnum mínum við palestínsku þjóðina, ferðum mínum þangað. Ég þekki palestínsku þjóðina sem friðsama þjóð sem er kúguð og býr við óviðunandi og óbærilegar aðstæður,“ segir Drífa.

Nokkur hundruð manns voru mætt á Austurvöll og var haf palestínskra fána ansi áberandi. Kröfur fólks voru skýrar enda voru þær kallaðar ítrekað í kór. Frjáls Palestína og frjálst Gasasvæði.

Eins og sjá má á myndinni var nokkur fjöldi mættur.Vísir/Ívar

Líf allra jafn mikils virði

Mótmælendur kölluðu eftir því að íslensk stjórnvöld endurskoðuðu afstöðu sína og fordæmdu það sem væri að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs. Rapparinn Erpur Eyvindarson var einn þeirra sem mótmæltu.

„Palestínskt mannslíf er alveg jafn mikils virði, líf allra er jafn mikils virði. Úkraínskt, rússneskt, norður- eða suður kóreskt. Palestínskt mannslíf, þetta er allt jafn mikils virði. Vesturlönd ganga ekki út frá því og það er sannað með öllum viðbrögðum stjórnvalda sem eru full af hræsni,“ segir Erpur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×