Erlent

Flug­maður á­kærður fyrir að reyna að brot­lenda far­þega­þotu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Atvikið átti sér stað í vél Alaskan Airlines á leið frá Everett til San Francisco.
Atvikið átti sér stað í vél Alaskan Airlines á leið frá Everett til San Francisco.

Bandarískur flugmaður hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa freistað þess að valda vélarbilun farþegaþotu. Ákæran er í 83 liðum, sem endurspeglar fjölda farþega um borð.

Atvikið átti sér stað á sunnudag í flugi Alaska Airlines frá Everett í Washington til San Francisco í Kaliforníu. Hinn 44 ára Joseph David Emerson var ekki á vakt en sat fyrir aftan flugstjórann og aðstoðarflugstjórann í flugstjórnarklefanum.

Samkvæmt yfirlýsingu frá Alaskan Airlines gerði Emerson tilraun til að grípa inn í eðlilegt flug vélarinnar en í upptökum af samtölum flugmannanna og flugumferðarstjóra heyrist annar flugmannanna segja að maður hafi gert tilraun til að slökkva á vélum þotunnar.

Hann sé kominn úr flugstjórnarklefanum og sé ekki að valda vandræðum aftur í vél. „Ég held að hann hafi verið yfirbugaður,“ bætir hann við og óskar aðstoðar lögreglu við lendingu.

Vélinni var lent í Portland í Oregon og maðurinn fluttur frá borði áður en haldið var áfram.

Einn farþeganna sagði í samtali við ABC News að þeir hefðu ekki vitað að eitthvað hefði komið upp á fyrr en flugþjónn hefði greint frá því að þau þyrftu að millilenda í Portland. Þá hefði hún heyrt annan flugþjón segja við hinn grunaða að allt væri í lagi og að honum yrði komið frá borði.

„Þannig að ég hélt að þetta væri alvarlegt heilbrigðistengt neyðartilfelli,“ sagði farþeginn.

Flugumferðaryfirvöld hafa sent tilkynningu til rekstraraðila þar sem greint var frá því að um einangrað tilvik væri að ræða og það tengdist ekki þróun heimsmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×