Fótbolti

Opnar dyrnar fyrir Messi að spila á Ólympíu­leikunum næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með heimsbikarinn eftir sigurinn í Katar fyrir tæpu ári.
Lionel Messi með heimsbikarinn eftir sigurinn í Katar fyrir tæpu ári. Getty/Hernan Cortez

Lionel Messi gæti mögulega endaði landsliðsferilinn á óvæntan hátt næsta sumar. Góður vinur hans sem lék með honum í argentínska landsliðinu vill fá hann í sitt landslið.

Messi varð Ólympíumeistari með Argentínu í Peking 2008 sem lengi var eini titilinn hans með landsliðinu. Hann var þá 21 árs gamall en vann ekki aftur titil með Argentínu fyrr en í Copa America 2021 þá orðinn 34 ára gamall.

Javier Mascherano þjálfar nú tuttugu ára landslið Argentínu en liðið á möguleika á því að taka þátt á Ólympíuleikunum í París næsta sumar. Liðið má bæta við eldri leikmönnum.

Argentínska liðið þarf að tryggja sér Ólympíusæti í undankeppni Suður-Ameríku sem fer fram í Venesúela frá 20. janúar til 11. febrúar.

Messi hefur þegar lýst yfir áhuga á að spila með argentínska landsliðinu í Suðurameríkukeppninni í sumar en Copa America fer fram í Bandaríkjunum frá 20. júní til 14. júlí eða tveimur vikum áður en Ólympíuleikarnir byrja í Frakklandi.

„Ég hef verið spurður út í þetta og auðvitað eru dyrnar opnar fyrir Leo. Hann má gera það sem hann vill,“ sagði Javier Mascherano við EFE. ESPN fjallar meðal annars um þetta.

„Við erum góðir vinir og ég myndi elska að fá hann með. Raunveruleikinn er að við verðum að komast þangað fyrst,“ sagði Mascherano.

Thomas Bach, forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar, hefur meira segja talað um að það væri gaman að sjá Messi á þessum Ólympíuleikum.

„Það væri frábært ef Messi yrði með. Ólympíuleikarnir er keppni sem margir fótboltamenn hafa metnað til að vinna. Leikmenn eins og Kylian Mbappé. Fyrir Lionel Messi þá væri það tækifæri til að skrifa söguna á ný. Hann gæti orðið eini leikmaðurinn í sögunni með tvö Ólympíugull. Ólympíugull og svo heimsmeistaragull,“ sagði Thomas Bach.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×