Þetta segir hann í yfirlýsingu á vef ASÍ sem ber titilinn „Að gefnu tilefni: Play virðir ekki grundvallarleikreglur vinnumarkaðarins“. Tilefnið er yfirlýsing Flugfreyjufélags Íslands vegna ummæla Birgis Jónssonar, forstjóra flugfélagsins Play, í Silfrinu á mánudag.
Þar sagði að fullyrðingar Birgis um að félagið væri undir hatti Icelandair og semdi aðeins við það rangar. Birgir ætti að sögn félagsins að vita að þessar fullyrðingar hafi verið rangar.
Í tilkynningu á vef ASÍ segir að af þessu tilefni telji sambandið rétt að rifja upp fyrri ályktun miðstjórnar og tengda umfjöllun um málefni Play. Í maí árið 2021 sagði meðal annars í ályktun miðstjórnar að Play ætlaði að bjóða lægri flugfargjöld með því að greiða starfsfólki sínu lægri laun en þekkist á íslenskum vinnumarkaði.
Starfsemin skásta falli byggð á siðlausum grunni
Í tilkynningu er haft eftir Finnbirni að á meðan Play sjái ekki að sér og hafnar því að fylgja leikreglum íslensks vinnumarkaðar muni íslensk verkalýðshreyfingin fordæma starfsemi Play, sem í skásta falli sé byggð á siðlausum grunni.
„Það að forstjóri Play hafi ráðist að heilindum FFÍ opinberlega sem ASÍ er stolt af því kalla sitt aðildarfélag, er sérlega siðlaust í ljósi þess hvað gengið hefur á undanfarin ár. Ég skora á Play að ganga til kjarasamningsviðræðna við FFÍ og tryggja það að íslenskir neytendur geti búið við samkeppnismarkað í millilandaflugi án þess að þurfa gefa verulegan afslátt af heilindum sínum og almennum hugmyndum um viðskiptasiðferði.“