Innlent

Við­búnaður vegna leka í véla­rúmi fiski­skips

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Drangsnesi, Skagaströnd og Siglufirði voru þegar í stað kölluð út á mesta forgangi.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Drangsnesi, Skagaströnd og Siglufirði voru þegar í stað kölluð út á mesta forgangi. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út á hæsta forgangi síðdegis í gær vegna leka í vélarrúmi fiskiskips í Húnaflóa. Áhöfn skipsins tókst þó að stöðva lekann og sigla því til hafnar.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að síðdegis í gær hafi áhöfn fiskiskips sem var að veiðum við Húnaflóa haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnt að talsverður leki væri í vélarúmi skipsins.

„Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Drangsnesi, Skagaströnd og Siglufirði voru þegar í stað kölluð út á mesta forgangi. Að auki hafði Landhelgisgæslan samband við önnur skip og báta í grenndinni og óskaði eftir að þau héldu á svæðið,“ segir í tilkynningunni.

Fjórtán um borð í skipinu

Rúmum stundarfjórðungi eftir útkall barst tilkynning um að búið væri að stöðva lekann og að verið væri að dæla sjó úr skipinu. Skipið var þá enn aflvana og var ákveðið að björgunarskipin Sigurvin frá Siglufirði og Húnabjörg frá Skagaströnd héldi áfram að fiskiskipinu en þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, björgunarbáturinn á Drangsnesi og önnur fiskiskip voru afturkölluð.

Fjórtán voru um borð í fiskiskipinu og hæglætisveður var á svæðinu að því er fram kemur í tilkynningunni. Til stóð að björgunarskipið frá Skagaströnd tæki skipið í tog en áhöfn fiskiskipsins tókst að koma vélum þess í gang og það sigldi því fyrir eigin vélarafli til hafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×