Fótbolti

Slíta sam­starfi við Pennann/Ey­munds­son vegna af­stöðu á verk­falls­degi kvenna og kvára

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Til stóð að halda útgáfuhóf í Pennanum/Eymundsson til að fagna útgáfu bókar Sveindísar Jane Jónsdóttur í dag.
Til stóð að halda útgáfuhóf í Pennanum/Eymundsson til að fagna útgáfu bókar Sveindísar Jane Jónsdóttur í dag. Samsett

Knattspyrnuverslunin Heimavöllurinn hefur ákveðið að draga sig úr samstarfi við Pennann/Eymundsson vegna afstöðu fyrirtækisins á verkfallsdegi kvenna og kvára.

Heimavöllurinn sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem greint er frá þessu. Þar kemur fram að afstaða Pennans/Eymundsson stríði gegn gildum Heimavallarins og því hafi þessi ákvörðun verið tekin.

„Til stóð að Heimavöllurinn myndi halda útgáfuhóf í dag laugardaginn 28. október í samstarfi við Pennann/Eymundsson til að fagna útgáfu bókar Sveindísar Jane Jónsdóttur, leikmanns íslenska landsliðsins og Wolfsburg í knattspyrnu,“ segir í yfirlýsingu Heimavallarins.

„Í ljósi frétta um afstöðu Pennans/Eymundsson á verkfallsdegi kvenna og kvára þann 24. október síðastliðinn höfum við á Heimavellinum ákveðið að draga okkur út úr samstarfinu með Pennanum/Eymundsson þar sem afstaða þeirra stríðir gegn gildum Heimavallarins og því sem við stöndum fyrir. Við höfum reynt að fá frekari svör frá Pennanum/Eymundsson án árangurs.“

Heimavöllurinn segir enn fremur að markmið hans hafi alla tíð verið að stuðla að jafnrétti og auka fjölbreytni fyrirmynda í knattspyrnu.

„Markmið verslunar Heimavallarins hefur frá upphafi verið að stuðla að jafnrétti og auka fjölbreytni fyrirmynda í knattspyrnu. Þetta höfum við gert eð því að standa við bakið á íslenskum knattspyrnukonum, segja sögu þeirra, auka sýnileika þeirra og halda viðburði þar sem að ungir knattspyrnuiðkendur geta hitt átrúnaðargoð og fyrirmyndir sínar augliti til auglitis.“

„Við stöndum fullum fetum við bakið á Sveindísi og munum styðja hana í öllum hennar verkefnum. Við hlökkum til að halda áfram að aðstoða Sveindísi við afhendingu, kynningu og sölu á bókinni,“ segir í yfirlýsingu heimavallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×