Innlent

Síminn vanda­mál en unnið að lausn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Engar ráðstafanir vegna símanotkunar eru í gildi á hjúkrunarheimilum Hrafnistu eins og er, segir forstjóri Hrafnistu.
Engar ráðstafanir vegna símanotkunar eru í gildi á hjúkrunarheimilum Hrafnistu eins og er, segir forstjóri Hrafnistu. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Forstjóri hjúkrunardeildar Hrafnistu segir að síminn sé nauðsynlegur í starfsemi stofnunarinnar en viðurkennir þó að of mikil símanotkun á vinnutíma sé vandamál og skerði þjónustu við íbúa. Unnið sé að lausn í málinu.

Símanotkun starfsfólks hjúkrunarheimila hefur vakið athygli undanfarna daga í kjölfar þess að í ljós kom að starfsfólki hjúkrunarheimilanna Eir, Skjóli og Hömrum sé bannað að vera í símanum í vinnunni. Engar ráðstafanir eru þó í gildi á hjúkrunarheimilum Hrafnistu eins og er. Þetta segir María Fjóla Harðardóttir forstjóri hjúkrunardeildar Hrafnistu í samtali við fréttastofu.

Ekki klippt og skorið

„Auðvitað er þetta ákveðið vandamál þegar maður gleymir sér í símanum en síminn er líka notaður hjá okkur sem tæki til fræðslu. Við vitum að þetta geti verið vandi að fólk er að gleyma sér í símanum. Við þurfum að ná tökum á því svo að það sé ekki að skerða þjónustu við okkar íbúa,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri hjúkrunardeildar Hrafnistu.

Hún tekur fram að ekki verði gengist í breytingar án samráðs við starfsfólk. 

„Við ætlum að vinna þetta í samvinnu við okkar starfsfólk. Þetta er ekkert klippt og skorið. Þetta er alveg flókið. Auðvitað viljum við að þetta skerði ekki þjónustu til íbúa. Einhvers staðar þurfum við að finna þennan milliveg. Það skiptir máli að við vinnum þetta með okkar starfsfólki.“

Tilraunir reynst vel

María sagði einnig að Hrafnista hefði kannað það að banna síma áður, en að kórónuveirufaraldurinn hafi bundið snöggan endi á þá tilraunastarfsemi. Þó hafi sú tilraun gengið vel og að starfsmenn hafi almennt verið ánægðir.

„Við þurfum að finna reglu sem virkar og gengur upp. Þess vegna skiptir máli að við séum að tala saman og gera þetta saman,“ sagði hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×