Afturelding vann HK, sem var þá í Grill 66-deildinni, í sextán liða úrslitum Powerade-bikarsins á síðasta tímabili eftir framlengdan leik og vítakastkeppni. Mosfellingar fóru svo alla leið og urðu bikarmeistarar í fyrsta sinn í 24 ár.
Afturelding og HK mætast aftur í sextán liða úrslitum Powerbikarsins í ár. Dregið var í sextán liða úrslitin í dag.
Einn annar Olís-deildarslagur er í sextán liða úrslitunum. Íslandsmeistarar ÍBV mæta Fram í Vestmannaeyjum. Rúnar Kárason mætir þar sínum gömlu félögum en hann var valinn leikmaður ársins þegar Eyjamenn urðu Íslandsmeistarar á síðasta tímabili. Eftir það gekk hann í raðir Fram.
Í sextán liða úrslitunum er einnig Hafnarfjarðarslagur en ÍH tekur á móti Haukum. FH sækir ÍR heim.
Leikirnir í sextán liða úrslitum Powerade-bikars karla fara fram 17.-18. nóvember næstkomandi.
Sextán liða úrslit Powerade-bikars karla
- ÍBV 2 – Valur
- ÍH – Haukar
- Þór Akureyri – Selfoss
- ÍR – FH
- Víðir – Stjarnan
- Fjölnir – KA
- Afturelding – HK
- ÍBV – Fram