Afreksstefnur eru hjá flestum íþróttafélögum og sérsamböndum. Börn allt niður í tólf ára eru valin í úrvalshópa á vegum sérsambanda. Þá berast reglulega fréttir af því að börn spili með meistaraflokkum. Yngstu börnin sem hægt er að finna fréttir af því að hafi spilað með meistaraflokkum voru ellefu ára.
Fjallað var um málið í þættinum Hliðarlínunni á Stöð 2 og Stöð 2 Sport í gærkvöldi en þar var meðal annars rætt við Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur sem spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Völsungi 14 ára gömul.
Aðspurð telur hún sig ekki hafa verið líkamlega tilbúna til að spila með meistaraflokki á þeim tíma.
„Nei, ég var mjög seinþroska. Ég var mjög lágvaxin og grönn. Létt á mér. Það hefur alltaf verið mjög auðvelt að ýta mér. Það var mjög gaman. Það var erfitt en við í rauninni vorum að halda aðeins aftur af þannig að ég fékk ekki meira en hálfleik í meistaraflokki.“
Sveinn Þorgeirsson íþróttafræðingur við HR segir mikilvægt að fara varlega í það að láta börn spila með meistaraflokkum.
„Það eru færri konur að æfa á fullorðins aldri sem þýðir það að til þess að manna liðin þá eru leikmenn sóttir óþarflega langt niður til þess að fylla upp í og halda úti meistaraflokkstarfi og þetta er virkilega varhugavert.“
Þannig henti umhverfið í meistaraflokkum oft ekki börnum.
„Þetta er allt annar heimur. Allt í einu er leikmenn sem eru miklu eldri en þú sjálf farnir að beita öllum brögðum til þess að reyna að sigra þig af því þú ert kominn inn á sama völl og fullorðnir og börn eru ekki tilbúin í þetta.“
Engar reglur til hjá ÍSÍ
Þá eru engar reglur til hjá ÍSÍ um hvenær börn mega spila með meistaraflokkum en sum sérsambönd eru þó með sínar reglur.
„Það eru engar reglur frá ÍSÍ um hérna hvenær börn mega spila með meistaraflokkum. Þegar að íþróttagreinin þarfnast mikils líkamaburðar þá hefur tólf ára barn ekkert að gera í meistaraflokk,“ segir Ragnhildur Skúladóttir sviðstjóri hjá ÍSÍ.
Sigurbjörg Sigurpálsdóttir samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs segir margt sem bera að varast í þessum málum.
„Þá verðum við náttúrulega að hafa það í huga að þá erum við að setja börnin í aðstæður sem eru kannski ekki endilega ætlaðar þeim. Frekar ætlaðar fullorðnum og þá þarf að spyrja sig er þetta eitthvað sem hæfir aldri og þroska þeirra. Af því að þarna erum við með allskonar umgjörð eins og mögulega óvægna áhorfendur eða mikið æfingaálag eða eitthvað svoleiðis. Þannig að við þurfum að passa vel upp á börn séu ekki sett í aðstæður sem þau ráða ekki við.“
Hægt er að sjá brot úr fyrsta þætti af Hliðarlínunni hér fyrir ofan. Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2 Sport geta séð þáttinn í heild.