Fótbolti

Tölvuvesen kom í veg fyrir lands­leik númer hundrað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Irene Paredes fagnar heimsmeistaratitlinum með spænska landsliðinu í sumar.
Irene Paredes fagnar heimsmeistaratitlinum með spænska landsliðinu í sumar. Getty/Maddie Meyer

Irene Paredes átti að spila sinn hundraðasta landsleik fyrir Spán í gær en þurfti í stað þess að sitja upp í stúku og horfa á leikinn.

Ástæðan er eins fáránleg og þær gerast. Hvort að það sé slæm tölvukunnátta starfsmanna spænska sambandsins eða bilun í tölvukerfi Alþjóða fótboltasambandsins er ekki á hreinu en það tókst alla vega ekki að koma henni inn í kerfið.

Montse Tomé, þjálfari spænska liðsins, sagði eftir 7-1 sigur á Sviss í Þjóðadeildinni að tölvuvilla hafi komið í veg fyrir að hægt væri að bæta Paredes inn á leikmannalistann.

„Það var eitthvað tölvuvesen. Þau sögðu mér frá því á hótelinu. Ég varð að bregðast við því og valdi þær ellefu sem þið sáuð,“ sagði Montse Tomé eftir leikinn.

Starfsmaður spænska sambandsins var að reyna að uppfæra UEFA kerfið en tókst það ekki. Því varð að nota sama hóp og í síðasta leik en Paredes missti af þeim leik. Amaiur Sarriegi, sem var ekki leikfær vegna meiðsla, var því í hópnum í þessum leik.

Aðeins tveir leikmenn hafa náð því að spila hundrað leiki fyrir spænska kvennalandsliðið en það eru Alexia Putellas og Jenni Hermoso. Putellas skoraði tvö mörk í leiknum í gær.

Irene Paredes er 32 ára og leikmaður Barcelona. Hún spilar sem miðvörður og kom 2021 frá Paris Saint-Germain þar sem hún var í fimm ár. Hún spilar sem miðvörður en hefur náð að skora 11 mörk í landsleikjunum 99.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×