Innlent

Jarð­skjálfta­virkni heldur á­fram

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Ekkert lát er á skjálftavirkni á Reykjanesskaga en aðalega hafa mælst smáskjálftar síðasta sólarhringinn.
Ekkert lát er á skjálftavirkni á Reykjanesskaga en aðalega hafa mælst smáskjálftar síðasta sólarhringinn. Vísir/Egill

Jarðskjálftavirkni heldur áfram við Þorbjörn og Svartsengi á Reykjanesskaga. Rúmlega tvö hundruð skjálftar hafa mælst frá miðnætti en engar stórar breytingar eru á virkninni síðan í gær. Síðasta sólarhring hafa aðalega smáskjálftar mælst á svæðinu en enn má gera ráð fyrir stærri skjálftum. 

Rúmur sólarhringur er liðinn síðan skjálfti af stærðinni 3.7 reið yfir, um klukkan eitt síðustu nótt. í samtali við fréttastofu segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands að staðan sé í raun óbreytt. 

Skjálftarnir undanfarinn sólarhring hafa verið á tveggja til fimm kílómetra dýpi. Í gær var greint frá því í frétt á vef Veðurstofunnar að búast megi við því að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir fjórum að stærð gætu fundist í byggð. Einar segir enn mega gera ráð fyrir því.

Samkvæmt gögnum úr GPS mælum og gervitunglum er kvika á um þriggja til fjögurra kílómetra dýpi vestan við Þorbjörn. Ekki eru uppi vísbendingar um að kvikan sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið en Veðurstofan hefur þó sagt frá því að staðan geti breyst hratt.

Upplýsingafundur fyrir íbúa Grindavíkur fer fram klukkan 17 í dag þar sem vísindamenn, almannavarnir og fleiri fara yfir stöðuna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×