Handbolti

Nýr kafli hefst form­lega í kvöld: „Ég finn að mér líður vel með þetta“

Aron Guðmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta
Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guð­jóns­son snýr í kvöld aftur í Laugar­dals­höll með ís­lenska lands­liðinu í hand­bolta en nú í allt öðru hlut­verki sem lands­liðs­þjálfari. Það er í kvöld sem ís­lenska lands­liðið hefur form­lega veg­ferð sína undir stjórn hins nýja lands­liðs­þjálfara er Fær­eyingar mæta í heim­sókn. Snorri er á­nægður með það sem hann hefur séð frá liðinu í vikunni fram að leik.

Í kvöld leikur Ís­land fyrri leik sinn af þeim tveimur leikjum sem liðið leikur við Fær­eyjar á næstu tveimur dögum. Það er kýr­skýrt í huga Snorra Steins hvað hann vill sjá frá leik­mönnum sínum í þessum leikjum.

„Ég vil sjá góða frammi­stöðu. Sjá að við séum að nálgast þetta sem al­vöru leiki,“ segir Snorri Steinn í samtali við Vísi. „Að það séu læti og bar­átta og að við fram­kvæmum þá hluti sem við viljum sjá. Að menn séu ein­beittir. Það er það sem ég vil sjá, fyrst og fremst, hjá liðinu. Ef menn eru það, þá er ég sann­færður um að góð frammi­staða fylgi í kjöl­farið.“

Hann er ánægður með margt af því sem hann hefur séð í sinni fyrstu æfingaviku með liðið.

„Ég skynja hópinn bara vel og er á­nægður með það sem ég hef séð. Svo er þetta bara eins og gengur og gerist. Það er eitt­hvað sem sér sem maður er á­nægður með, annað kannski ekki.

En til þess er þessi vika gerð. Ég er að prófa fullt af hlutum og mun koma til með að gera það í þessum komandi leikjum okkar við Fær­eyjar. Ein­hverju af því komum við til með að halda, öðru ekki. Vonandi gengur bara sem flest upp en það er nú yfir­leitt ekki þannig.“

Kraftur, vilji og hugur

Ís­lenska lands­liðið kom saman fyrr í vikunni og hefur undan­farna daga náð að æfa saman. Á þeim æfingum hefur Snorri Steinn í fyrsta skipti fengið að vinna með hópnum í heild sinni og þarf hann að nýta tímann vel því stutt er í næsta stór­mót, EM í Þýska­landi, í byrjun næsta árs.

Hvað hefurðu séð frá liðinu á þessum undan­förnum dögum sem þú ert á­nægður með?

„Aðal­lega bara stemningin og hugurinn í hópnum. Ég er mest á­nægður með það. Ég finn fyrir vilja í hópnum, það er kraftur og hugur í þeim. Það gerir allt auð­veldara fyrir mig sem þjálfara.“

„Finn að mér líður vel með þetta“

Snorri Steinn er reynslu­bolti þegar kemur að ís­lenska lands­liðinu, sem leik­maður. Á sínum tíma spilaði Snorri 257 lands­leiki fyrir Ís­lands hönd og í þeim leikjum skoraði hann 848 mörk. Hann var hluti af silfur­liði Ís­lands á Ólympíu­leikunum 2008 og bronsliði okkar á EM 2010.

Snorri Steinn er einn af silfurstrákunum úr Peking. Hann er fimmti markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi - spilaði alls 257 leiki fyrir íslenska landsliðið og skoraði í þeim 848 mörk eða 3,3 að meðaltali í leik.EPA/SRDJAN SUKI

Hann snýr nú aftur í Laugar­dals­höll með lands­liðinu en nú í fyrsta skipti sem lands­liðs­þjálfari.

Hvaða til­finningar bærast um innra með þér nú þegar stutt er í endur­komuna og þessi kafli þinn sem lands­liðs­þjálfari hefst form­lega?

„Til­finningin fyrir þessu er náttúru­lega bara frá­bær. Auð­vitað mun ég kannski finna betur fyrir þeim til­finningum sem þessu fylgja þegar að ég kem í Laugar­dals­höllina fyrir leik og upp­lifi þetta allt aftur. Ég er bara að reyna taka þessu af ró. Ég finn að mér líður vel með þetta. Mér líður vel með liðið og sjálfan mig.

 Ég er alltaf stressaður fyrir leiki. Var það á mínum tíma hjá Val, var það sem leik­maður og verð það pott­þétt fyrir leikinn í dag. Það er bara til­finning sem maður á að njóta að finna fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×