Fernandes skoraði sigur­markið í uppbótartíma

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bruno Fernandes fagnar sigurmarki sínu gegn Fulham.
Bruno Fernandes fagnar sigurmarki sínu gegn Fulham. getty/Bryn Lennon

Manchester United sótti langþráðan sigur gegn Fulham í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Allt stefndi í markalaust jafntefli eftir að mark Scott McTominay var dæmt af en Bruno Fernandes tókst að skora sigurmarkið í uppbótartíma.

Marcus Rashford var ekki meðal leikmanna í dag, hann hefur hlotið gagnrýni fyrir að hafa farið út á lífið eftir 3-0 tap í nágrannaslagnum gegn Manchester City síðustu helgi. Erik Ten Hag sagði það ekki ástæðuna fyrir fjarveru heldur væru meiðsli að plaga leikmanninn.

Scott McTominay kom Manchester United yfir strax í upphafi leiks en eftir fjögurra mínútna rannsókn komust VAR dómarar leiksins að þeirri niðurstöðu að dæma markið af vegna rangstöðu.

Manchester liðið hélt boltanum betur en heimamenn í fyrri hálfleiknum en skapaði sér fá hættuleg marktækifæri. Fulham sótti vel á þá í skyndisóknum en hvorugu liði tókst að koma boltanum í netið og staðan var því markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Liðin héldu áfram að skipast á sóknum í seinni hálfleiknum. Willian átti hættulegustu tilraun heimamanna á 59. mínútu með skoti fyrir utan teig sem fór rétt framhjá markinu. Varamaður Manchester United, Facundo Pellistri, gerði svo atlögu að marki Fulham en skot hans var auðveldlega varið af Bernd Leno.

Allt stefndi í markalaust jafntefli en fyrirliði Man. United, Bruno Fernandes, steig upp á ögurstundu og tryggði sigurinn með marki í uppbótartíma. Joao Palhinha tapaði boltanum á eigin vallarhelmingi, eftir smá klafs skoppaði hann fyrir Pellistri sem kom honum á Fernandes, hann fór framhjá einum varnarmanni og kláraði svo færið af miklu öryggi.

Þrjú kærkomin stig í hús fyrir Manchester United.


Tengdar fréttir

Ten Hag ósáttur með afmælisfögnuð Rashford

Marcus Rashford bað þjálfara sinn og liðsfélaga afsökunar á því að hafa skellt sér út á lífið eftir 3-0 tap Manchester United gegn Manchester City síðustu helgi. Erik Ten Hag, þjálfari liðsins, sagði slíka hegðun vera „óásættanlega“. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira