Stoðsendingaferna Dokus gegn Bournemouth

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jeremy Doku kom að fimm af sex mörkum Manchester City gegn Bournemouth.
Jeremy Doku kom að fimm af sex mörkum Manchester City gegn Bournemouth. getty/Stephen White

Manchester City fór létt með Bournemouth í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Jeremy Doku var tvímælalaust maður leiksins eftir að hafa skorað opnunarmarkið og lagt svo upp næstu fjögur mörk. 

City menn báru algjöra yfirburði frá fyrstu mínútu leiksins. Þeir fengu aragrúa af marktækifærum og áttu skot í stöng áður en boltinn rataði loks í netið á 30. mínútu leiksins. Markið skoraði Jeremy Doku eftir stutt þríhyrningsspil við Rodri, Doku fékk boltann aftur og þrumaði honum í fyrstu snertingu framhjá markverði Bournemouth. 

Hann lagði svo upp annað mark örskömmu síðar þegar hann lagði boltann út á Bernardo Silva sem skoraði af miklu öryggi. Doku var svo á ferðinni í þriðja sinn þegar hann skaut að marki Bournemouth á 37. mínútu leiksins, skot hans var á leiðinni framhjá en skoppaði af liðsfélaga hans Manuel Akanji og þaðan í netið.

Doku fullkomnaði svo stoðsendingaþrennuna þegar hann lagði upp fjórða mark City með því að stinga boltanum inn fyrir varnarlínuna á Phil Foden á 64. mínútu leiksins. Varamaðurinn Luis Sinisterra minnkaði muninn fyrir Bournemouth á 74. mínútu áður en Jeremy Doku lagði upp í fjórða skiptið og Bernardo Silva skoraði fimmta mark Man. City. 

Leiknum var þó ekki lokið enn því Nathan Aké átti eftir að bæta sjötta marki City við og loka leiknum endanlega, 6-1. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira