Enski boltinn

Ten Hag ó­sáttur með afmælisfögnuð Rashford

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Erik Ten Hag, þjálfari Manchester United, var ósáttur með Rashford.
Erik Ten Hag, þjálfari Manchester United, var ósáttur með Rashford.

Marcus Rashford bað þjálfara sinn og liðsfélaga afsökunar á því að hafa skellt sér út á lífið eftir 3-0 tap Manchester United gegn Manchester City síðustu helgi. Erik Ten Hag, þjálfari liðsins, sagði slíka hegðun vera „óásættanlega“. 

Rashford átti afmæli síðastliðinn þriðjudag, 31. október, en ákvað að halda upp á það á næturklúbbi í Manchester tveimur dögum fyrr, á sunnudag, strax eftir leikinn gegn Manchester City. Rashford spilaði 85 mínútur í leiknum en var svo tekinn út úr byrjunarliðinu þegar liðið mætti Newcastle á miðvikudag, sá leikur tapaðist einnig með þremur mörkum gegn engu. 

Ten Hag var spurður út í málið á blaðamannafundi og sagði þar að hann væri búinn að ræða við Rashford, honum þætti málið algjörlega óásættanlegt en Rashford væri búinn að biðjast afsökunar, málinu væri ekki lokið en það yrði leyst innanhúss. Þjálfarinn þvertók fyrir það að Rashford hafi verið refsað á miðvikudag þegar hann var tekinn úr byrjunarliðinu og sagði það bara eðlilega breytingu á liðinu sökum leikjaálags.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hegðun Rashford raskar ró þjálfarans, hann fékk ekki að spila leik gegn Wolves á síðasta tímabili eftir að hafa sofið yfir sig og mætt seint á liðsfund. 

Rashford hefur átt erfitt uppdráttar, líkt og margir leikmenn Manchester United, hann hefur aðeins skoraði eitt mark í 14 leikjum það sem af er tímabils. Hann verður meðal leikmanna þegar Manchester United mætir Fulham í dag, en þjálfarinn vildi eðlilega ekki gefa það upp hvort hann myndi byrja leikinn.

Uppfært 11.30: Marcus Rashford er utan hóps hjá Manchester United og mun ekki taka þátt í leiknum gegn Fulham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×