Enski boltinn

Segir að Liverpool geti ekki barist um titilinn nema þeir kaupi tvo leik­menn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool varð að gera sér jafntefli að góðu gegn nýliðum Luton Town.
Liverpool varð að gera sér jafntefli að góðu gegn nýliðum Luton Town. getty/Catherine Ivill

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, segir að liðið þurfi að kaupa tvo leikmenn til að berjast um Englandsmeistaratitilinn.

Liverpool gerði 1-1 jafntefli við nýliða Luton Town í ensku úrvalsdeildinni í gær. Þar fannst Carragher veikleikar Rauða hersins koma í ljós.

„Liverpool er enn ekki jafn gott og Manchester City að stöðva skyndisóknir. Fólk hugsar alltaf um Liverpool sem lið sem pressar andstæðinginn framarlega. En Liverpool er lið sem er mikið með boltann. Þeir eru ekki jafn góðir og City með boltann og tapa honum oftar,“ sagði Carragher á Sky Sports í gær.

„Mótherjarnir finna pláss til að komast inn fyrir vörn Liverpool. Luton voru bara ekki nógu góðir til að refsa þeim oftar en einu sinni.“

Carragher segir að Liverpool þurfi að kaupa varnarsinnaðan miðjumann og varnarmann sem geti gert Trent Alexander-Arnold kleift að spila á miðjunni.

„Ég held að Liverpool sé ekki tilbúið til að vinna titilinn. Ég held að Jürgen Klopp og stuðningsmenn Liverpool viti það núna. Þeir vilja komast aftur í Meistaradeildina en þegar kemur að því að berjast um titilinn held ég að þeir þurfi annan miðjumann og topp varnarmann,“ sagði Carragher.

Liverpool er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 24 stig, þremur stigum á eftir toppliði City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×