Enski boltinn

Töl­fræði Antonys vand­ræða­leg í saman­burði við Doku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jérémy Doku og Antony skiptast á orðum í Manchester-slagnum um þarsíðustu helgi.
Jérémy Doku og Antony skiptast á orðum í Manchester-slagnum um þarsíðustu helgi. getty/Matthew Peters

Blaðamaður Daily Mail bendir á hversu illa Antony, leikmaður Manchester United, komi út í samanburði við Jérémy Doku hjá Manchester City.

Antony náði sér ekki á strik og var tekinn af velli þegar United vann Fulham, 0-1, á laugardaginn. 

Doku lék hins vegar við hvurn sinn fingur sama dag; skoraði eitt mark og lagði upp fjögur í 6-1 sigri City á Bournemouth.

Jack Gaughan, blaðamaður Daily Mail, jós Doku lofi í pistli sínum og segir hann hafa komið frábærlega inn í lið City. Hann segir samanburðinn við Antony vera Belganum í hag og að í þessum tveimur leikmönnum komi kannski munurinn á United og City í ljós.

Gaughan bendir ennfremur á að Doku hafi gefið sex stoðsendingar í fyrstu tólf leikjum sínum fyrir City, þrefalt fleiri en Antony hefur gefið á einu ári.

United keypti Antony frá Ajax fyrir 82 milljónir punda í fyrra á meðan City borgaði Rennes 55 milljónir punda fyrir Doku í haust.

Doku og félagar hans í City eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og með fullt hús stiga í sínum riðli í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×