Enski boltinn

Rooney leitaði í á­fengi og drakk þar til hann datt nánast út

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birmingham City hefur ekki farið vel af stað undir stjórn Waynes Rooney.
Birmingham City hefur ekki farið vel af stað undir stjórn Waynes Rooney. getty/Graham Chadwick

Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu Manchester United, leitaði í áfengi á erfiðum tímum á ferlinum. Hann drakk þar til hann leið nánast út af.

Í hlaðvarpi rúbbíhetjunnar Robs Burrow greindi Rooney frá þeim erfiðleikum sem hann glímdi við á meðan leikmannaferlinum stóð. Og til að takast á við þá leitaði hann í áfengi. 

„Ég hef staðið frammi fyrir mörgum áskorunum, bæði innan vallar sem utan, og leitaði þá í áfengi,“ sagði Rooney.

„Þegar ég var rúmlega tvítugur var ég heima í nokkra daga, fór ekki út úr húsi og drakk þar til ég datt nánast út af. Ég vildi ekki vera í kringum fólk því stundum skammast þú þín og líður eins og þú hafir brugðist fólki.“

Rooney sagðist hafa verið tregur til að leita sér hjálpar og þess í stað notað áfengi til að takast á við vandamál í lífinu.

„Ég vissi ekki hvernig ég átti að glíma við þetta öðruvísi svo ég valdi áfengi til að hjálpa mér í gegnum þetta. Ég átti þess kost að tala við fólk en gerði það ekki og reyndi að glíma við þetta sjálfur,“ sagði Rooney.

„Þegar þú gerir það og þiggur ekki aðstoð og leiðsögn annarra geturðu endað á slæmum stað eins og ég var í nokkur ár. Blessunarlega er ég ekki lengur hræddur við að tala við fólk um það sem ég er að glíma við.“

Rooney er nýtekinn við Birmingham City í ensku B-deildinni. Liðið á enn eftir að vinna leik undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×