Innlent

Sprengingar í Seljahverfi og „mögu­legt rán“ í 105

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til vegna háværra spreninga í Seljahverfi í Reykjavík í nótt en ekkert var að heyra eða sjá þegar hún mætti á vettvang.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Þetta er í annað sinn í vikunni sem lögreglu berast ábendingar um sprengingar í Breiðholtinu.

Lögreglu barst einnig tilkynning um „mögulegt rán“ í póstnúmerinu 105 og handtók einstakling sem passaði við lýsingu þess seka. Sá reyndist ósamvinnuþýður, fór ekki að fyrirmælum lögreglu og neitaði að segja til nafns.

Hann gistir fangaklefa þar til hann verður viðræðuhæfur, segir í yfirliti lögreglu.

Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í miðborginni og þá var tilkynnt um innbrot og þjófnað í heimahúsi í póstnúmerinu 108. Eitthvað var tekið af verðmætum.

Lögreglu í Hafnarfirði barst tilkynning um blikkandi ljós úr íbúð en talið er að um bilaða ljósaperu hafi verið að ræða og ekki talin þörf á frekari aðgerðum.

Þá barst ein tilkynning um eld í ruslatunnu einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu. Slökkvilið mætti á vettvang og slökkti í tunninni, sem reyndist ónýt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×