Skjálftavirknin heldur áfram á sama dýpi og áður. Áfram má búast við hviðukenndri skjálftavirkni á meðan að kvikusöfnun er í gangi, að því er segir í tilkynningu á Veðurstofu Íslands.
Landris heldur áfram á svipuðum hraða og hefur verið samkvæmt gervitungla- og GPS gögnum. Bylgjuvíxlmynd fyrir tímabilið 28. október til 6. nóvember sem sýnir nær lóðrétta hreyfingu staðfestir það, en einnig sýnir hún hliðrun vegna sprunguhreyfinga tengt jarðskjálftavirkninni.
Hægt er að fylgjast vel með stöðu mála á svæðinu í vefmyndavél Vísis.
Uppfærð líkön byggð á sömu gögnum áætla að kvikusöfnun í lárétta syllu á um fimm kílómetra dýpi haldi áfram og frá upphafi þenslumerkisins þann 27. október sé meðal innflæði áætlað um fimm rúmmetrar á sekúndu með óvissu upp á tvo rúmmetra á sekúndu.