Skoðun

Sálu­messa um spillinguna

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar

„Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta  er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki  neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta“.

(Úr skýrslu Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis, 1. okt., 2 009)

Þorvaldur Logason: EIMREIÐARELÍTAN – SPILLINGARSAGA, 464 BLS.

Árið 1979 gaf Kjartan Gunnarsson út lítið rit, sem nefndist: Uppreisn frjálshyggjunnar. Þetta var eins konar stefnuskrá. Það átti að rísa upp gegn böli ríkisforsjárinnar. Það átti að leysa úr læðingi atorku og framtak einstaklingsins. Þeir sem að baki stóðu, eru þekktir undir nafninu Eimreiðarhópurinn, eftir tímariti sem þeir gáfu út á árunum 1972-75.

Nú – tæplega hálfri öld síðar – búum við í þjóðfélagi, sem þeir hafa mótað öðrum fremur. Í spilltu þjóðfélagi. Eins og Styrmir Gunnarsson lýsir því. Þar sem pólitískt vald er misnotað til auðsöfnunar fámennrar elítu. Aðallega fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins. Í bók sinni Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar (2017) segir Styrmir „að ójöfn eignaskipting á Íslandi sé sú þriðja mesta í heiminum...“ (Credit Suisse 2014).

Elítan

Þessi bók Þorvalds Logasonar á að segja þessa sögu. Hún byrjaði sem meistaraprófsritgerð við Háskóla Íslands í kjölfar rannsóknarskýrslu Alþingis um Hrunið 2010. Þótt rannsóknarskýrsla Alþingis sé, að mati Þorvalds, verðmæt heimild um staðreyndir um gang mála í aðdraganda Hrunsins, er henni ábótavant að einu leyti: Hún vanmeti spillinguna. Þorvaldur vill bæta úr því. Bók hans er eins konar séríslenskt framlag til félagsfræði spillingarinnar: Það var spillingin, sem olli Hruninu.

Elita er valdakjarni sem stýrir smáu eða stóru samfélagi óformlega eftir eigin áformum, þvert á stjórnskipun og formlegt valdsumboð. Ákvarðanir elítunnar eru leynilegar, hvergi skráðar, óljóst ræddar og ekki í umboði neins nema elítunnar sjálfrar“ (bls. 19).

Vð greinum fimm valdsvið: Þrískipt ríkisvald (löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald). En síðan bæta fræðin við fjárhagsvaldi, þekkingarvaldi og hervaldi. Hervald á ekki við á Íslandi, a.m.k. enn sem komið er. Þekkingarvaldið öðlast menn í krafti yfirráða yfir fjölmiðlum, háskólum og hugveitum. Í framhaldi af þessari greiningu segir:

Aðeins einu stjórnmálaafli hefur tekist að ná sterkum tökum á þessum valdssviðum öllum á Íslandi síðustu áratugi, og í raun hefur ekkert annað afl verið nálægt því. Aðeins valdaflokkur Íslands, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur náð slíkri stöðu... (bls. 19).

Hinir flokkarnir standast engan samanburð. Þó tekur steininn úr, að því er varðar Vinstri - græn. Þau virðast halda, að pólitík sé einhvers konar samkvæmisleikur eða saumaklúbbur, sem ekkert mark er á takandi.

Eimreiðarhópurinn

Eimreiðarhópurinn er kynntur til sögunnar á bls. 43 sem „án efa frægasti og valdamesti valdakjarniÍslandssögunnar eftir fullveldi“. Þetta eru 16 einstaklingar, flestir lögfræðingar frá Háskóla Íslands, alla vega þeir sem mest hefur kveðið að. Athygli vekur, að margir þeirra voru fóstraðir á flokksblaðinu – Morgunblaðinu - við pólitísk áróðursstörf, þ.á.m. Björn Bjarnason, meðritstjóri og síðar ráðherra. Þrír þeirra urðu formenn Sjálfstæðisflokksins og þar með forsætisráðherrar lýðveldisins 17 ár fyrir Hrun. Í þessum hópi er einnig að finna helsta hugmyndafræðing frjálshyggjunnar við HÍ (Hannes Hólmstein Gissurarson) og framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins til 26 ára og hægri hönd Davíðs (Kjartan Gunnarsson).

Kjartan er sagður vera tengiliður flokks og fjármálaheims sem varaformaður bankaráðs Landsbankans, bæði fyrir og eftir einkavæðingu. Þarna er líka að finna lykilmenn í stjórn helstu einkavæddu ríkisfyrirtækjanna, eins og t.d. Brynjólf Bjarnason (sem kenndur er við Granda og Landsímann) og Magnús Gunnarsson (m.a. stjórnarformaður Eimskips og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar eftir brottför hersins). Sumir hafa, að sögn, helzt úr lestinni á seinni árum, svo sem eins og Þorsteinn Pálsson, sem nú telst vera einn helsti hugmyndafræðingur Viðreisnar.

Þessum hópi og fylgifiskum þeirra í fjármálaheiminum og stjórnunarstöðum í samtökum atvinnurekenda er nánar lýst (bls. 42-49). Hvernig Eimreiðarhópurinn tengist síðan lykilfyrirtækjum gamla Kolkrabbans (t.d. Eimskip, Sjóvá, Flugleiðir, Íslandsbanki o.s. frv.) og hinu rótgróna ættaveldi flokksins (Thorsurum, H.Ben. -ættinni, Engeyjarættinni og nú loks Vestmannaeyjaættinni) er nánar lýst á bls. 70-76.

Kafbáturinn?

Til að gera langa sögu stutta fylgir hér lýsing höfundar á lykilmanni Eimreiðarhópsins, að sögn Þorvalds, í kaflanum „Kafbáturinn í Landsbankanum (bls. 337):

„Ef nefna mætti einn mann, sem helsta útrásarvíking þjóðarinnar, þá væri það Kjartan Gunnarsson. Viðskiptapólitíkusinn sem breytti Landsbankanum í fjárfestingabanka, stofnaði aflandseyjaþjónustu og keypti útrásarbanka í Bretlandi. Kjartan bjó til flugbrautina til Tortola, meðan bankinn var að miklum meirihluta í eigu ríkisins. Landsbankinn kynnti fyrir auðmönnum strax 1998 útlán án stimpilgjalds, undanvik frá fjármagnstekjuskatti og fullkomna bankaleynd, sem veitti möguleika til að skuldfæra persónuleg útgjöld og lækka uppgefnar tekjur (Fréttablaðið, 2016, 11.feb.). Á sama tíma gerði ríkisstjórn Davíðs það hagstæðara að flytja fé úr landi. Seta Kjartans í endurskoðunarnefnd Landsbankans og samtímis í stjórn Heritable Bank segir allt, sem segja þarf um útrás bankans. Hann var yfirumsjónarmaður falsaða bókhaldsins og hafði samtímis yfirumsjón með Icesave-útlánunum“.

„ Ef velja hefði átt einn – og aðeins einn mann – til yfirheyrslu um orsakir og aðdraganda Hrunsins, hefði það átt að vera Kjartan Gunnarsson, en hann, ótrúlegt en satt, var aldrei yfirheyrður, hvorki af Rannsóknarnefnd Alþingis né af Landsdómi“.

Tvær þjóðir

Í rannsóknarskýrslu Alþingis um Hrunið segir á einum stað:

„Það er verðugt rannsóknarefni að skoða, hvernig það gerðist í lýðræðisríkinu Íslandi, að efnahagslegt vald safnaðist á fárra manna hendur, þannig að á örfáum árum upp úr aldamótunum 2000 varð til ný forréttindastétt, sem lifði við meiri munað en þekkst hefur hér á landi“. ( RNA, 2010, 8. bindi, bls. 82)

Þetta varð Styrmi Gunnarssyni, fyrrverandi ritstjóra Mbl., tilefni til að tala um, að í upphafi nýrrar aldar, 21stu aldarinnar, byggju tvær þjóðir í landinu: Annars vegar ný stétt ofurríkra og hins vegar undirstétt, sem byggi við fátækt og félagslegt öryggisleysi, mitt í allsnægtunum (sjá Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar, bls. 121). Þetta gerist á sama tíma og Ísland er komið í hóp 10 ríkustu þjóða heims. Hvað veldur? Hvað varð af velferðarríkinu, sem við þykjumst sækjast eftir að norrænni fyrirmynd? Er það í svelti eftir slímusetu Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu og stjórnarforystu í 17ár fyrir Hrun? Ein af kennisetningum nýfrjálshyggjunnar er jú „to starve the beast“, - að svelta skrímslið, þ.e.a.s. velferðarríkið. Hvernig hefur þetta getað gerst? Er það með vitund og vilja þjóðarinnar?

Einkavæðing auðlindanna ...

Tvennt skiptir hér höfuðmáli: Einkavæðing sjávarauðlindarinnar og einkavinavæðing bankanna. Samþjöppun auðs og valds í höndum fáeinna fjölskyldna. Þrátt fyrir ótvírætt ákvæði laga um sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni er framkvæmdin í reynd, eins og um lögverndaðan eignarétt sé að ræða. Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum, og almannaeign er bæði veðsett og arfleidd. Hvers vegna var framsal veiðiheimilda leyft (af vinstri stjórninni 1990), án þess að auðlindagjald væri tekið fyrir tímabundinn nýtingarrétt?

Fyrir því var sú einfalda ástæða, að það hafði engin auðlindarenta myndast á þeim tíma til að standa undir gjaldtöku. Þvert á móti: Við vorum í lengstu kreppu á lýðveldistímanum, hagvöxtur var neikvæður ár eftir ár. Það var samdráttur í afla. Það voru versnandi viðskiptakjör. Sjávarútvegsfyrirtækin voru sokkin í skuldir eftir langvarandi fjárfestingafyllirí. Með þessum rökum höfnuðu Framsókn og Alþýðubandalag tillögum okkar jafnaðarmanna um að lögfesta gjaldtöku, sem þeir sögðu (ranglega), að yrði skattur á landsbyggðina. Það yrði að bíða betri tíma.

Hvernig brugðumst við jafnaðarmenn við þessu? Með því að semja um viðbót við fyrstu grein fiskveiðistjórnarlaga sem skilyrði fyrir samþykkt framsals. Hún hljóðar svo: „Úthlutun veiðiheimilda skv. lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“ Fyrirvaranum var ætlað að tryggja, að tímabundinn nýtingarréttur myndaði hvorki lögvarinn eignarrétt né bótaskyldu á ríkið, ef úthlutun veiðiheimilda yrði breytt síðar. Án þessa fyrirvara væri stríðið um eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni þegar tapað. Spurningin er: Mun það halda – þegar á reynir?

Að því kom, þegar nær dró aldamótunum 2000. Síðan þá hefur einokun veiðiheimilda myndað auðlindarentu umfram öll rekstrarútgjöld, svo nemur tugum milljarða á ári. Þeir sem síðan hafa farið með sjávarútvegsmál hafa látið það viðgangast, að álögð veiðileyfagjöld hafa ekki dugað fyrir útgjöldum ríkisins vegna sjávarútvegsins. Auðlindarentan hefur runnið óskipt allan tímann til hinnar nýju forréttindastéttar í skjóli pólitísks valds.

Væri Þjóðhagsstofnun ennþá til , væri það reglubundið verkefni hennar að reikna auðlindarentuna frá ári til árs. Lokun Þjóðhagsstofnunar í einhverju geðþóttakasti forsætisráðherra hefur dregið langan dilk á eftir sér.

... og einkavæðing bankanna

Önnur meginskýring á umskiptum auðs og valda í okkar þjóðfélagi frá og með aldamótunum var einkavæðing ríkisbankanna og fjármálakerfisins í heild (rán sparisjóðanna) með alræmdri misbeitingu pólitísks valds Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, sem að lokum leiddi rakleitt til Hrunsins. Hrunið hafði ólýsanlega illar afleiðingar fyrir þúsundir heimila og fyrirtækja. Eignasamþjöppunin sem síðan hefur átt sér stað eftir Hrun, m.a. fyrir tilverknað Seðlabankans, á sér ekki sinn líka í Íslandssögunni, nema ef vera skyldi í kjölfar farsótta og náttúruhamfara.

Þótt einkavæðing lítilla og meðalstórra ríkisfyritækja, einkum til starfsmanna, (dæmi: Ferðaskrifstofa ríkisins, Bifreiðaskoðun, Ríkisprent .o.s.frv.) hafi verið eðlileg og að henni staðið lögum og reglum samkvæmt, vitum við nú, að fenginni reynslu, að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi fyrir framkvæmdinni.

Afhjúpun

Hrunið afhjúpaði endanlega goðsögnina um Sjálfstæðisflokkinn. Hann er ekki, þegar á reynir, flokkur frjálsrar samkeppni, né hinna jöfnu tækifæra. Hann hefur reynst vera flokkur auðræðis og fákeppni, sem gengur hvað eftir annað í berhögg við vilja og hagsmuni almennings. Hugmyndafræði Kommúnismans er fyrir löngu komin á öskuhauga sögunnar. Það þurfti stærsta björgunarleiðangur ríkisins, sem sagan kann frá að greina, til að forða hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar frá sömu örlögum við Hrunið. Hún tórir nú í gjörgæslu um sinn. En yfirvofandi loftslagsvá, allsherjar orkuskipti og forræði yfir gervigreind komandi tíma, kalla á íhlutun og eftirlit ríkisins, í nafni lýðræðis og mannréttinda, sem aldrei fyrr.

Ég hef áður rifjað það upp, að EES-samningurinn, um aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins, var efnislega fullbúinn í vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar (1988-91). Á leiðtogafundi EFTA í Holmenkollen – skíðaparadís Norðmanna – í mars 1989, hafði okkur Steingrími lánast að fá leiðtoga hinna EFTA-ríkjanna – Norðurlanda og Alparíkja – til að fallast á fríverslun með sjávarafurðir. Og að gera fríverslun með sjávarafurðir að sameiginlegu samningsmarkmiði EFTA-ríkjanna. Þar með var fiskveiðipólitík ESB um aðgang að auðlindum fyrir aðgang að markaði, hafnað. Það gjörbreytti samningsstöðu okkar.

EES – dýru verði keypt

EES-samningurinn reyndist marka tímamót. Í fyrsta lagi fengum við nær hindrunarlausan aðgang að stærsta fríverslunarmarkaði heims fyrir okkar útflutning. Í öðru lagi var sjálf tilvistarspurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki jafn aðkallandi og áður, og sundraði því ekki þjóðinni. Í þriðja lagi batt ég vonir við, að lög og reglur innri markaðarins myndu hjálpa okkur til að binda endi á hefðbundna einokun og fákeppni okkar örsmáa markaðar. Í fjórða lagi mundi aðild að innri markaðnum opna dyr að erlendri fjárfestingu, sem gæti aukið fjölbreytni í íslensku efnahagslífi (upplýsingatækni, lyfjaframleiðsla o.s.frv.).

Loks batt ég miklar vonir við, að með aðild að innri markaðnum gætum við laðað erlenda banka til að veita innlendu fjármálakerfi nauðsynlega samkeppni. Alla vega þóttist ég þess fullviss, að samningurinn þýddi nýtt gróskuskeið, svo að lengsta kreppa lýðveldistímans yrði að baki.

Örlagarík mistök?

Sumt gekk eftir – annað ekki. Þ.á.m. að fákeppni bankanna hélt velli – verðtryggð á ofurvöxtum. Og svo hitt: Samstarfsflokkar mínir – Framsókn og Alþýðubandalag – fóru hamförum gegn samningnum – og úthrópuðu mig og minn flokk nánast sem landráðamenn. Vinstri stjórnin – best mannaða ríkisstjórn lýðveldistímans – hafði með fagmannlegri hagstjórn komið eilífðarverðbólgunni niður í eins stafs tölu – hélt velli . Að fenginni góðri reynslu vildi ég halda henni áfram.

En ég vildi ekki fórna EES-samningnum – jafnvel þótt þeir byðu mér stól forsætisráðherra. Ég treysti því ekki, að lokinni rækilegri könnun, að þessir tveir flokkar gætu tryggt EES-samningnum brautargengi á þingi – með eins atkvæðis meirihluta. Í ævisögu sinni er Steingrímur Hermannsson sammála þessu mati mínu (sjá bls. 347). Þar viðurkennir Steingrímur, að það hafi verið mistök af hans hálfu að setja andstöðu við Evrópusambandið á oddinn (sjá bls. 345). Það var málinu óviðkomandi.

Þetta voru örlagarík mistök. Kannski skiptu þau sköpum. Ég læt lesandanum eftir að hugsa það til enda, hvað ef...

Að lokum

Að lokum dregur Þorvaldur saman helstu niðurstöður sínar af þessari félagsfræðirannsókn spillingarinnar. Það er ljóst, að hann hefur komist yfir ýmsar heimildir, áður ókunnar, eins og t.d. fundargerðir bankaráðs Landsbankans. Kaflinn heitir: Afhjúpun: elítan vissi allt (sjá bls.392). Þar segir meðal annars:

Bankakerfið var að hruni komið – vandinn var ekki bara lausafjárvandi heldur eiginfjárvandi. Eigið fé bankanna var allt í skuld. Innlánasóknin (Icesafe) í Bretlandi og Hollandi var gerð út á tóman tryggingarsjóð. Svikin gagnvart Seðlabanka Evrópu (ástarbréfin) gáfu ranga mynd af stöðu bankanna. Sama á við um ástarbréf Seðlabanka Íslands til bankanna. Bókhaldsblekkingar bankanna birtast m.a. í rangri færslu veða á eigin hlutabréfum. Kaup bankanna á eigin hlutabréfum fölsuðu myndina. Bankarnir fóru í herferð til að rústa krónunni. Stofnfjárkaupin í sparisjóðakerfinu snerist alfarið um að tæma varasjóðina. Seðlabankann skorti ekki valdheimildir til að sækja upplýsingar um bókhald bankanna. Landsbankinn veitti umfangsmikil lán til eigenda sinna (og annarra venslaðra aðila), langt umfram siðlega bankastarfsemi. Landsbankinn afskrifaði ekki lán, sem voru leynilega í vanskilum (e. non- performing loans). Bókhaldið var „ýkt og falsað“ til að „tékka upp“ eigið fé. Skuldsettar yfirtökur voru fjármagnaðar með vafasamri skuldabréfaútgáfu eignarhaldsfélaga, með veði í eigin hlutabréfum.

Listinn er sagður ekki tæmandi. Lokaályktunin er þessi: Elítan vissi „hvernig allt kerfið varsamansúrrað og hlaut að falla, ef einn bankinn félli......“ (bls. 393).

Ekki slys – heldur stefna

En hver var hlutur ríkisins – Seðlabanka og Fjármálaeftirlits – sem átti að tryggja fjármálastöðugleikann og gæta hagsmuna almennings? Hér er stiklað á stóru um svör höfundar og er þó „langt í frá allt upp talið“ (bls. 398-99):

Að hylma yfir og taka þátt í fjársvikum gagnvart Seðlabanka Evrópu og Luxemborg. Að leyfa innlánasafnanir í útibúum þrátt fyrir yfirvofandi gjaldþrot. Að leyfa ólögleg gengislán. Að leyfa bönkunum að færa risalán eigenda bankanna og íslenskra stórfyrirtækja heim til bankaog sjóða í þeirra umsjá. Að leyfa fjármálafyrirtækjum að lána eigendum sínum langt umframlög. Að fela krosseignatengsl. Að hylma yfir stórar áhættuskuldbindingar til tengdra aðila. Að leyfa gjaldþrota bönkum að hafa fé af lífeyrissjóðum með skuldabréfaútgáfu. Að hylma yfir með fölsun bókhaldsins. Að leyfa nýja, breytta bókhaldsaðferð, til að minnka vægi markaðsverðs. Að horfa framhjá kaupum á eigin bréfum langt umfram lagaheimildir. Að leyfa öfgafull vaxtamunarviðskipti og framvirka gjaldeyrissamninga, um leið og bankarnir voru að rústa krónunni. Að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra og halda fjármáleftirlitinu veiku.

Hvað þýðir þetta á mæltu máli? M.a. að Hrunið var ekki slys. Það var ekki mistök. Það var afleiðing yfirlýstrar stefnu. Hún heitir nýfrjálshyggja. Samkvæmt henni er ríkið aldrei hluti af lausninni – það er sjálft vandamálið. Hrunið var afleiðing af „uppreisn nýfrjálshyggjunnar“ gegn velferðarríkinu, sem Eimreiðarhópurinn boðaði í upphafi.

Og við höfum ekki séð fyrir endann á því stríði .

Höfundur var formaður Alþýðuflokksins 1984-96. Hann var fjármálaráðherra 1987-88 og utanríkisráðherra 1988-95.)




Skoðun

Sjá meira


×