Innlent

Reykjar­mökkur lík­lega ekki eld­gos

Jón Þór Stefánsson skrifar
Skjáskot af reyk sem sést við Litla-Hrút.
Skjáskot af reyk sem sést við Litla-Hrút. Live From Iceland

Ólíklegt er að reykur sem streymir úr hrauni við Litla-Hrút sé eldgos. Líklega sé um að ræða gas eða hita sem sé að losna úr nýlegu hrauni vegna jarðhræringanna sem hafa orðið í dag.

Þetta segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu.

„Við erum búin að heyra í landverði varðandi þetta og fá myndir frá honum og upplýsingar. Landverðir hafa séð svona reyk oft þegar það er svona mikil jarðskjálftavirkni. Þetta er mjög víða. Þetta kemur upp á mörgum stöðum í hrauninu.“

Salóme útskýrir að enn sé talsverður hiti í hrauninu sem rann í sumar, því geti hiti og gas komið frá því.

Aðspurð um hvort þetta gefi að einhverju leiti til kynna hvort eldgos nálgist svarar Salóme neitandi. „Nei, þetta er óbein afleiðing skjálftavirkni. Það hefur töluvert mikil jarðskjálftavirkni verið í dag, og það bara brýtur upp hraun.“

„Þetta er í sjálfu sér ótengt þessu kvikuinnskoti sem er við Þorbjörn,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×